Jósef Geir færði starfsfólki geislaspilara

Miklar framkvæmdir hafa átt sér stað á HSu undanfarið og mikið um iðnaðarmenn í húsinu. Einn starfsmanna JÁ verktaka, Jósef Geir Guðmundsson, trésmiður sem unnið hefur í húsinu í nokkra mánuði kom einn daginn með geisladiska með jólalögum og færði starfsfólkinu á sjúkrahúsinu.Þá komst hann að því að enginn geislaspilari var til. Hann bætti snarlega úr því og færði deildinni 2 geislaspilara auk þess sem hann kom með konfekt. Hann bætti um betur og skrapp eftir vinnu og setti upp hillu á vaktherbergi þar sem annar geislaspilarinn verður staðsettur.
Jósef sagði að kaffið væri svo gott sem hann fengi hjá starfsfólkinu og þetta væri því jólagjöfin hans til HSu. Starfsfólkið er afar þakklátt fyrir þessa höfðinglegu gjöf.

Á meðfylgjandi mynd er Fjóla Ingimundardóttir, aðstoðardeildarstjóri á sjúkrasviði, ásamt Jósef Geir Guðmundssyni með geislaspilarann góða á milli sín.