Jólapistill

Kæra Sunnlendingar

Nú líður að jólum og áramótum. Óhætt er að segja að árið í ár hafi verið með öðru sniði en við erum vön. Við höfum öll staðið frammi fyrir miklum samfélagslegum breytingum síðan í mars þegar COVID-19 hóf innreið sína í íslenskt samfélag með öllum sínum takmörkunum í okkar daglega líf. Jólin verða ekki undanskilin slíkum takmörkunum og því verður hátíðin hjá flestum okkar frábrugðin því sem við áður þekkjum.

Á líðandi ári hafa víða orðið talsverðar breytingar á starfsemi fyrirtækja og stofnana. Heilbrigðisstofnun Suðurlands er ekki undanskilin í þeim efnum og stendur stofnunin frammi fyrir nýjum áskorunum á degi hverjum. Umræðan um bóluefni gegn COVID-19  gefur okkur von í hjarta um að barátta okkar við hinn skæða vágest taki að lokum enda. Við gleðjumst yfir þeirri tilhugsun að öðlast það frelsi sem við öll þráum í opnara samfélagi. Þrátt fyrir að við erum farin að sjá ljósið verðum við að muna líkt og á öðrum tímum að vanda okkur og huga vel að persónulegum sóttvörnum.

 

Baráttan við COVID-19 hefur gefið heilbrigðisþjónustunni í heild sinni tækifæri til endurskoðunar, enda ýmislegt sem hægt er að læra af þeim viðbrögðum sem ráðist var í. Í upphafi faraldursins var gripið  til róttækra viðbragðsáætlana innan HSU.  Miklar breytingar voru gerðar á skipulagi, verkefnum var forgangsraðað og tryggt var að nauðsynlegri þjónustu væri sinnt. Starfsmenn HSU unnu mikið þrekvirki og voru fljótir að tileinka sér nýjan samskiptamáta, starfsaðferðir og tækni til að mæta breyttum tímum. 

Á undanförnum misserum hefur farið fram öflugt umbótarstarf innan stofnunarinnar og er mikilvægt að halda þeirri vinnu áfram. Markviss stefnumótunarvinna er nú að baki þar sem framtíðarstefna til ársins 2025 liggur fyrir ásamt starfsáætlun fyrir árið 2021. Markmið stefnumótunar er að stuðla að sterkari liðsheild meðal starfsmanna, auka starfsánægju og bæta þjónustu til þeirra sem leita til stofnunarinnar. Mikilvægt er að horfa björtum augum til framtíðar og vera með skýra framtíðarsýn og hefur HSU alla burði til að vera framsækin stofnun sem tileinkar sér að vera í fararbroddi í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni.

Formleg sameining allra heilbrigðisstofnana á víðfeðmasta heilbrigðisumdæmi landsins lauk á árinu þegar rekstur heilbrigðisþjónustunnar á Höfn sameinaðist stofnuninni, að hjúkrunar- og dvalarrýmum undanskildum. Formlegri sameiningu var náð þann 1. maí 2020.

 

Mikilvægt skref í jafnréttismálum náðist á starfsárinu þar sem vinnu var lokið við jafnlaunastefnu HSU með því að stofnunin hlaut jafnlaunavottun þann 4. maí sl.

 

Á haustmánuðum ákvað heilbrigðisráðherra að tryggja HSU aukið fjármagn til að koma á fót fjórum rýmum þar sem unnt er að veita líknar- og lífslokameðferð. Þetta skref er mikilvægur þáttur í þjónustu HSU sem fagnar því að fá tækifæri til að geta stutt betur við líknarþjónustu á þeim erfiða tíma sem sjúklingar og aðstandendur standa frammi fyrir þegar lífslok nálgast.

Tímamótasamningar í rekstri heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni ganga í gegn nú um áramótin þegar nýtt greiðslulíkan heilsugæslunnar verður innleitt. Innleiðingin er liður að skilvirkum þjónustukaupum og á að gæta jafnræðis á milli rekstraraðila og notenda. Aðferðafræðin byggist á því að fjármagn til rekstrar hverrar heilsugæslustöðvar endurspegli þann sjúklingahóp sem viðkomandi heilsugæslustöð þjónar. Undirbúningur og prufukeyrsla hefur átt sér stað á árinu sem er að líða, en nýja líkanið tekur gildi þann 1. janúar nk. Til að auðvelda eftirfylgni skráninga fyrir heilsugæslulíkanið er stofnunin að innleiða hugbúnað sem mun auka yfirsýn starfseminnar og auðvelda alla eftirfylgni. Kerfið býður upp á að vera með mælaborð sem sýnir rauntölur hverju sinni.

 

Um miðjan desember var opnað fyrir nýtt innkaupakerfi hjá HSU en það hefur í för með sér aukið öryggi í innkaupamálum innan stofnunarinnar. Samhliða þessum breytingum mun Fjársýsla ríkisins annast bókhalds- og greiðsluþjónustu stofnunarinnar.

 

Mannauður hverrar stofnunar er andlit hennar og því er afar mikilvægt að huga að vellíðan og starfsánægju á vinnustað. Rannsóknir tengdar starfsánægju sýna að fylgni er á milli starfsánægju og afkastagetu, gæðum í starfi og árangri starfseiningar. Það er því eftir miklu að sækjast að byggja upp góðan og öflugan vinnustað þar sem starfsmönnum líður vel í vinnunni. Stytting vinnuvikunnar sem verið er að innleiða hjá mörgum starfsstéttum verður vonandi til þess að bæta aðstæður hjá starfsmönnum og styðja við meira jafnvægi á milli einkalífs og vinnu.

 

Starfsfólk HSU er einstaklega sterkur og góður hópur og er ég stolt af því að tilheyra þessum öfluga hópi. Á þessum krefjandi COVID tímum hafið þau enn og aftur sýnt og sannað hversu mögnuð þau eru. Við vitum öll að það er mikil áskorun fólgin í því að veita heilbrigðisþjónustu svo öllum líki, en okkar hlutverk er að tryggja sem besta framleiðni í þjónustunni með skynsamlegri nýtingu fjármuna og skipulagi sem styður við þau markmið. Með þau markmið að leiðarljósi tryggjum við bæði gæði þjónustunnar okkar og öryggi hennar.

 

Við finnum að HSU nýtur mikils velvilja og stuðnings í samfélaginu og erum við afar þakklát öllum þeim fjölmörgu félögum og einstaklingum sem hafa lagt okkur lið. Við sendum þeim okkar dýpstu þakkir.

 

Ég óska ykkur og fjölskyldum ykkar gleðilegra jóla og gæfu á nýju ári.

 

 

Díana Óskarsdóttir, forstjóri HSU