Jólakveðja frá forstjóra HSU

Herdís Gunnardóttir, forstjóri HSU

 

 

 

 

 

 

 

 

Kæra samstarfsfólk.

 

 

Nú þegar jólahátíðin er gengin í garð er gott að staldra við í dagsins önn.  Jólin eru sá tími þegar við erum flest full tilhlökkunar, njótum þess að brjóta upp hversdagslega lífið og gerum okkur dagamun. Það er þó þannig að í samfélaginu okkar eru þeir sem ekki hafa sömu tilhlökkun til jólahaldsins og glíma við sorg, söknuð, veikindi eða einmannleika.  Við sem störfum á HSU erum þau sem um hátíðar, sem endranær, tökum á móti þeim sem til okkar leita. Oft er tilefni þeirra sem leitar þjónustu okkar yfir jól þess eðlis að það tekur á að horfa upp á erfiðar aðstæður og veikindi fólks.  Við leysum af kunnáttu úr þeim heilsufarsvanda sem hver einstalingur þarfnast aðstoðar með.  Óvíða er krafist jafn fjölbreyttrar færni og hjá okkur við að takast á við margs konar verkefni, hvort sem þau eru af líkamlegum, sálrænum, félagslegum eða efnislegum toga. Það er því ekki ofsagt þegar ég fer yfir í huganum umfangsmikið og fjölbreytt starf okkar og hverju við erum að áorka, þá er ég í senn bæði stolt og þakklát. 

 

Ég er stolt af öflugum starfshópi og hjá okkur eru nánast allar stöður full mannaðar. Við getum verið stolt af framlagi okkar hvers og eins til starfseminnar á HSU.  Aldrei áður hefur HSU þurft að sinna jafn mörgum sjúklingum og öðrum sem til okkar leita. Afköst eru sífellt að aukast.  Á sama tíma hefur líka tekist að byggja upp, gera endurbætur, bæta þjónustuna, stytta biðtíma og auka þjónustuframboð. Það er afrek út af fyrir sig sem við hvert og eitt getum verið stolt af.   Samheldnin í starfshópnum skilar okkur árleiðis í átt að markmiðum okkar. Við erum oft svo upptekin í dagsins önn að við sjáum ekki hverjum við náum að áorka.  Því er gott að staldra við og hugsa til baka hvað það er sem við erum ánægð og stolt með af þeim verkefnum sem okkur hefur verið treyst fyrir. Ég hvet ykkur því til að koma alls staðar á framfæri hvað við erum að afreka í þjónustu við sjúklinga á hverjum degi.  Það er ekki lítið. Við erum að skila frábæru faglegu starfi. 

 

Ég er þakklát fyrir fagmennsku ykkar allra, ósérhlýfni og vinnusemi í störfum ykkar fyrir HSU.  Fagmennska er einmitt fólgin í því að geta af kunnáttu leyst úr verkefnum dagsins og vanda þeirra sem til okkar leita. Jafnframt þurfum við að sjá tækifærin hjá okkur sjálfum til að vaxa og læra af því sem betur má fara á hverjum tíma.  Hjá stofnun sem vex jafn hratt og HSU er mikilvægt að þétta hópinn og finna lausnir saman um hvernig skuli best ráða við sívaxandi kröfur við of þröngan kost. Ég er því þakklát fyrir að hafa upplifað í samskiptum að starfsfólk er tilbúið að finna bestu lausnir í stöðunni hverju sinni. Hjá okkur fer álagið fer vaxandi.  Það er því áríðandi að við séum líka meðvituð um hvernig við hlúum að okkur sjálfum og hugum að líðan innan hópsins okkar.

 

Ég vona að þið njótið nærveru og hlýju yfir jólahátíðina, upplifið gleði og endurnýjað kraftana.  Næg verkefni bíða okkur á nýju ári. Gleðilega jólahátíð til ykkar allra, sér í lagi til ykkar sem standið vaktina í framlínunni um jól og áramót.

 

 

Með kærri kveðju,

 

Herdís Gunnarsdóttir

Forstjóri HSU