Jólakveðja

Kæra samstarfsfólk

Nú fer að koma að lokum aðventunnar og jólahátíðin sjálf að hefjast, jólaljós eru komin í flesta glugga og jólasöngvar óma hvert sem farið er. Desember er oft annasamur mánuður, þar sem allir eru að reyna leggja sig fram við að gera umhverfið sem notalegast fyrir okkur og þá sem í kringum okkur eru. Við skulum þó ekki gleyma að mikilvægast er að njóta samverunnar með hvert öðru, vera til staðar hér og nú og njóta hvort sem er í vinnu eða með fjölskyldu og vinum.  Það er líka gott að staldra aðeins við í dagsins önn og skoða hvað hefur áunnist á líðandi ári. Þá er gott að rifja upp góðar stundir og huga að því hvert við viljum stefna á komandi ári. Við getum líka glaðst yfir því að dimmasti dagur ársins er að baki og við fögnum því að nú tekur daginn að lengja og færir okkur smá saman meiri birtu og yl. Við vitum að það bíða okkar mörg endurbótaverkefni á komandi árum og það er gott til þess að hugsa að með hækkandi sól búum við til grundvöll sem er okkur nauðsynlegur til að kljást við þær áskoranir sem við ætlum að takast á við á komandi misserum.

Þegar ég lít yfir farinn veg á árinu er það mér efst í huga það kærkomna tækifæri sem ég fékk með að sameinast þeim öfluga hópi sem starfar innan HSU. Það er ánægjulegt að sjá hvernig þið leysið þau verkefni sem þið fáið í hendur af mikilli fagmennsku og umburðarlyndi. Verkefnin eru margvísleg og krefjandi og álagið oft meira en hollt er. Við slíkar aðstæður er mikilvægt að við munum eftir að hlúa vel hvert að öðru og stöndum þétt saman í þeim verkefnum sem við þurfum að leysa. Á erfiðum álagstímum megum við þó ekki gleyma að gleðjast saman þegar vel gengur. Við eru líka svo lánsöm að fjölmargir einstaklingar og líknarfélög hugsa til okkar með hlýhug og sýna starfinu okkar mikla virðingu með fjárframlögum og gjöfum. Gjafirnar koma sér vel fyrir starfsemina og fyrir það erum við þeim sannarlega þakklát.

Ég hlakka til komandi árs og þakka ykkur fyrir ánægjuleg kynni á því ári sem er að líða. Það er einlæg ósk mín að jólahátíðin veiti ykkur og fjölskyldum ykkar góðar samverustundir og hvíld. Það verða þó margir að störfum innan HSU yfir jólahátíðina og sendi ég þeim sérstakar hátíðarkveðjur. 

 

Gleðileg jól,

Díana Óskarsdóttir