Joðskortur á meðgöngu

Í gegn um tíðina hefur mataræði Íslendinga séð til þess að joðskortur hefur varla verið til á Íslandi. En síðustu ár hefur mataræði fólks tekið miklum breytingum og í nýrri rannsókn kemur í fyrsta skipti fram joðskortur hjá fjölda fólks. Næringarfræðingar kenna um minnkandi neyslu á mjólkurvörum og fiski.

 

Joð er fólki mjög mikilvægt þar sem það gegnir veigamiklu hlutverki í starfsemi skjaldkirtilsins. Skjaldkirtillinn framleiðir hormón sem hafa áhrif á mörg líffæri líkamans, til að mynda hjarta, lifur, nýru og heila. Joðskortur er því sérstaklega hættulegur á meðgöngu þar sem hann hefur neikvæð áhrif á þroska barnsins.

 

Ráðlagður dagskammtur af joði er 150 míkrógrömm fyrir fullorðna en 175 míkrógrömm fyrir barnshafandi konur og 200 míkrógrömm fyrir konur með barn á brjósti. Mest er af joði í mögrum fiski, eins og ýsu og í mjólk og mjókurvörum. Því er mælt með að barnshafandi konur neyti a.m.k. tveggja skammta af af mjólk eða mjólkurvörum dag hvern og borði fisk 2 – 3 sinnum í viku. Þannig ætti að nást í nægilegt joð til að uppfylla ráðlagðan dagskammt. Þær konur sem ekki neyta mjólkurvara eða fisks þurfa daglega að taka fæðubótarefni sem inniheldur 150 míkrógrömm af joði. Best er að byrja töku á fæðubótarefnum með joði áður en konan verður þunguð en annars eins fljótt og auðið er. Aldrei ætti þó að taka meira en 600 míkrógrömm á dag og ekki nota þara eða þaratöflur þar sem þau geta innihaldið stærri joðskammta en æskilegir eru og einnig mögulega önnur efni sem geta valdið fósturskaða.

 

F.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Dagný Zoega

Ljósmóðir HSU