Inngrip í fæðingar eiga að vera í lágmarki á HSu

Þau inngrip í fæðingar sem skráð eru markvisst á HSu og hvers vegna við viljum hafa þau í lágmarki


Pethidin er sterkt verkjalyf, sem stundum er notað við fæðingar.  Það hefur slævandi áhrif á bæði móður og barn og í sumum tilfellum getur það haft öndunarletjandi áhrif á barnið og valdið erfiðleikum við brjóstagjöf.  Það var notað í þeim tilgangi að minnka sársauka í hríðunum en þykir ekki bera mikinn árangur sem verkjastilling.  Það virkar hins vegar mjög slakandi og hefur því góð áhrif á kvíða og spennu og er nú mest notað í þeim tilvikum þar sem konan er mjög spennt, hrædd eða þreytt.

Spangarskurðir sem gerðir voru til þess að minnka hættu á stórum spangaráverkum við fæðingar.  Seinni tíma rannsóknir hafa hins vegar leitt  í ljós að verri útkoma er fyrir konuna ef hún er klippt, t.d. hvað varðar styrk grindarbotns og óþægindi í leggöngum, og það minnkar ekki hættu á stórum spangaráverkum.  Spangarrifur sem koma af sjálfu sér gróa aftur á móti betur, valda minni örmyndun og minni óþægindum eftir á.


Gangsetningar á fæðingum.  Þá er konu gefið lyf eða gert gat á belgi til að fæðing byrji.  Rannsóknir hafa hins vegar sýnt að sé fæðingu ýtt af stað á þennan hátt, eru meiri líkur á að konan lendi í fleiri inngripum í fæðingunni, þ.á.m. óeðlilegum fæðingum eins og með hjálp sogklukku eða keisaraskurðar.


Mænurótardeyfing (epidúral) sem er árangursríkasta verkjameðferðin í fæðingu, en jafnframt mesta inngripið af þeim verkjameðferðum sem í boði eru.  Mænurótardeyfing getur verið himnasending í löngum og erfiðum fæðingum og getur jafnvel afstýrt keisaraskurði í þeim tilvikum.  Hún eykur hins vegar hættuna á að grípa þurfi til sogklukku eða keisaraskurðar auk þess sem notkun hennar krefst þess að konan sé með vökvainnrennsli í æð.  Oftar en ekki dregur deyfingin úr hríðum svo að í flestum tilvikum þarf að gefa hríðaaukandi lyf sem aftur á móti krefst síritunar á fósturhjartslætti og þá getur konan verið bundin við mónitor það sem eftir er fæðingarinnar.  Hreyfiskerðingin sem þá verður, getur enn aukið vandamálið t.d.  að barnið gangi ekki niður í grindina, eða súrefnisflæði til þess minnkar svo breyting verður á hjartslætti þess svo að grípa gæti þurft til keisaraskurðar í öryggisskyni.  Þetta er skólabókardæmi um það hvernig eitt inngrip í fæðingu getur vafið upp á sig og endað sem miklu stærra vandamál.