Inflúensupúlsinn – Inflúensan í rénun

Inflúensan er nú í rénun eins og sést á meðfylgjandi mynd, sem sýnir fjölda tilfella með inflúensulík einkenni samkvæmt klínísku mati læknis. Faraldurinn var mjög svipaður og í fyrravetur. Tölulegar upplýsingar um fjölda tilfella og aldursdreifingu er hægt að nálgast í töflum á vefsíðunni www.influensa.is, sjá „Fjöldi inflúensutilfella 2009-2012“ til vinstri á síðunni.

Samkvæmt upplýsingum frá veirufræðideild Landspítala hafa allar staðfestar inflúensugreiningar  í vetur verið inflúensa A(H3), enginn hefur greinst með svínainflúensu A(H1) eða inflúensu B. Töluvert hefur greinst af RS veiru í ungum börnum, en í viku 12 (19 – 25 mars) var RS veiran staðfest í öndunarfærasýnum frá  átta börnum. RS veirugreiningar voru sennilega færri í vikunni sem leið (viku 13), endanlegar niðurstöður liggja ekki fyrir. Nánast engar aðrar öndunarfæraveirur hafa greinst síðastliðnar vikur.

Þessar niðurstöður eru í samræmi við útbreiðslu inflúensunnar í Evrópu sjá nánar á heimasíðu sóttvarnastofnunar Evrópu (ECDC), en þar hefur inflúensa A(H3) verið ráðandi og í flestum löndum dregur nú úr inflúensunni.