Inflúensan mætt – aldrei of seint á láta bólusetja sig

InfluensanNúna er flensan komin og því er gott að hafa í huga muninn á inflúensunni og venjulegri kvefpest. Líkur á að veikjast af flensu er mun minni hjá þeim sem hafa bólusett sig en hjá þeim sem ekki hafa gert það. Á bráðamóttökunni á Selfoss hefur verið greind Inflúensu B. Þó nokkrir hafa verið að leita á móttökuna og eru þeir til viðbótar þeim sem detta og meiða sig í hálkunni. 30-50 manns leita á bráðamóttökuna og á læknavaktina daglega og því getur stundum verið einhver bið ef mikið er um að vera. Vissa sjúklinga getur tekið langan tíma að vinna með og þá þurfa þeir sem eru minna slasaðir eða veikir að hafa biðlund.

 

Á hverju ári gengur inflúensa hér á landi og oftast mest frá desember og fram í mars. Stundum eru faraldrar alvarlegir eins og spánska veikin 1918. Í Bandaríkjunum einum saman deyja að því talið er nærri 200 manns á dag, yfir veturinn úr venjulegri inflúensu. Því er gríðarlega mikilvægt að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll. Mjög mikilvægt er að greina á milli inflúensu og annarra veirusýkinga.

 

Gott er að minna á, að það er aldrei of seint á láta bólusetja sig, jafnvel þótt faraldurinn sé kominn á fullann skrið.

 

Einnig er eindregið er mælt með því að barnshafandi konur séu bólusettar gegn árlegri inflúensu. Bólusetja má hvenær sem er á meðgöngu. Barnshafandi konum er hættara við alvarlegum veikindum ef þær sýkjast. Óvíst er hvort sýking auki hættu á fósturláti. Nýburinn nýtur góðs af bólusetningunni fyrstu mánuði ævinnar.

 

Fólk sem fær Inflúensu verður skyndilega bráðveikt með háan hita, mikla beinverki og höfuðverk. Oft fylgir mikil veikindatilfinning, t.d. hrollur.

 

Notast má við eftirfarandi viðmið:

Inflúensa:
1. Hár hiti
2. Beinverkir
3. Höfuðverkur
4. Veikindatilfinning mikil
5. Hrollur
6. Hósti sjaldan vandamál

 

Aðrar veirusýkingar:
1. Ekki eins hár hiti
2. Ekki beinverkir
3. Lítill höfuðverkur
4. Ekki eins mikil veikindatilfinning
5. Sjaldan hrollur
6. Hósti og kvef algengt