Inflúensan færist í aukana

Inflúensan færist í aukana og tilkynningum um inflúensulík einkenni  fer fjölgandi, sjá Mynd. Inflúensan hófst um svipað leyti fyrir ári síðan og er fjöldi tilfella eftir vikum sambærilegur milli ára.  Aldursdreifing tilfella með inflúensulík einkenni hefur verið nokkuð jöfn.

Samkvæmt upplýsingum frá veirufræðideild Landspítala fjölgar einnig þeim sem greinast með inflúensu, þar af hafa allir verið með inflúensu A (H3),  enginn með svínainflúensu A(H1N1) eða inflúensu B. Það sem af er vetri hefur inflúensan verið staðfest á  höfuðborgarsvæðinu, Akranesi, Sauðárkróki og Húsavík.

Þetta er í samræmi við útbreiðslu inflúensunnar í Evrópu en frekari upplýsingar er hægt að nálgast á heimasíðu sóttvarnastofunar Evrópu (www.ecdc.europa.eu<http://www.ecdc.europa.eu>). Inflúensan fer hægt af stað í Evrópu og er inflúensu A (H3N2) veiran ráðandi.

Í fyrri hluta janúar  var RS veira staðfest á veirufræðideild Landspítala hjá tveimur börnum, sjö mánuða og eins árs. Börnin voru búsett á Suðurnesjum og á Akranesi. Í desember og janúar greindust alls fimm einstaklingar með metapneumoveiru, þar af voru fjórir eins árs eða yngri. Stöku tilfelli af parainflúensu, adenóveiru og enteróveiru hafa verið staðfest á veirufræðinni sl. tvo mánuði.