Hvíti Gauti – uppboð kálfs til góðgerðamála

Kalfur_Hviti_GautiSunnlenski sveitadagurinn verður haldinn á Selfossi laugardaginn 3. maí n.k.  Að deginum standa fyrirtækin Jötunvélar og Vélaverkstæði Þóris á Selfossi.  Að beiðni Guðbjargar Jónsdóttur bónda á Læk og barna hennar, verður boðinn upp á Sunnlenska sveitadeginum, alhvítur kálfur, Hvíti Gauti.  Nafngift kálfsins er til heiðurs eiginmanni Guðbjargar, Gauta Gunnarssyni bónda á Læk sem lést fyrir stuttu úr krabbameini.

 

Ágóðinn af uppboðinn mun verða notaður til fegrunar og umbóta á aðstöðu fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra á nýstofnaðri göngudeild við HSu og mun hópur frá samtökunum Umhverfi og vellíðan koma með tillögur að útliti og aðbúnaði á deildinni.

 

Göngudeild lyflækninga við Heilbrigðisstofnun Suðurlands Selfossi, verður fyrsta eiginlega göngudeildin sem starfrækt hefur verið við stofnunina og er stefnt að opnun hennar í byrjun næsta vetrar.  Deildin verður staðsett á jarðhæð, innaf Bráða- og slysamóttöku, þar sem heilsugæslan var staðsett áður.  Þangað munu sjúklingar geta leitað sem þurfa á reglubundinni framhaldslyfjagjöf að halda undir eftirliti lyflæknis. Þetta væru sjúklingar með alvarleg veikindi t.d. sjúklingar í krabbameinsmeðferð og sjúklingar sem eru í lyfjameðferð við ýmsum bólgusjúkdómum eins og liðagikt, hrygggikt og sáraristilbólgusjúkdómum. Einnig munu sjúklingar geta komið þangað til að fá blóðgjafir og þarna mun einnig nýrnavél vera staðsett fyrir þá sem þurfa á blóðskilun að halda.

 

Opnun deildarinnar er mikið framfaraskref fyrir Heilbrigðisstofnun Suðurlands, því lengi hefur verið brýn þörf á betri aðstöðu við stofnunina á þessari tegund af þjónustu.  Með opnun deildarinnar aukast möguleikar á að auka og víkka út þjónustuna og gera hana öflugri ásamt því að skapa skjólstæðingunum betra umhverfi.  Stjórn HSu er að vonum afar þakklát fyrir framtakið hjá Guðbjörgu og þann hlýhug sem þar býr að baki og mun gjöfin koma sér afar vel.

 

Það er von Guðbjargar og aðstandenda Sunnlenska sveitadagsins að vel verði tekið í uppboðið og myndarlegur sjóður muni líta dagsins ljós. Kálfurinn Hvíti Gauti mun að uppboði loknu fara í Húsdýragarðinn og dvelja þar um ókomna tíð.