Hversvegna kembileit fyrir brjósta- og leghálskrabbameini ?

Kembileit fyrir Brjóstakrabbameini

Árangur leitar með brjóstamyndatöku byggist einkum á því að finna krabbameinið á byrjunarstigi þar sem minni líkur eru á að dreifing æxlisvaxtar nái til eitla í holhönd og út um líkamann.  

 

Til að sem bestur árangur náist í leitinni þurfa konur að mæta reglulega í myndatöku.  Þannig er helst komið í veg fyrir að meinið nái að stækka sem eykur líkurnar á dreifingu. Auk fækkunar dauðsfalla af völdum sjúkdómsins er annar aðalávinningur hópleitar með brjóstamyndatöku sá að mun fleiri konum en ella gefst kostur á minni skurðaðgerð þ.e. fleygskurði í stað þess að allt brjóstið sé tekið.

 

Þó að reglubundin brjóstamyndataka sé eina aðferðin sem hefur sannað gildi sitt til leitar að brjóstakrabbameini er hún ekki óbrigðul, auk þess sem sum mein vaxa hraðar en önnur og geta þannig komið upp milli þess sem konur fara í myndatöku. Því er eindregið mælt með að konur skoði sjálfar brjóst sín reglulega, helst einu sinni í mánuði, svo að greina megi áþreifanleg æxli sem fyrst.

 

Jafnframt verður að leggja á það áherslu að slík sjálfskoðun – eða skoðun hjá lækni – getur engan veginn komið í stað reglubundinnar myndatöku, heldur er hún aðeins til viðbótar. Liðlega helmingur þeirra brjóstakrabbameina sem greinast í hópleit reynast alls ekki áþreifanleg, og allmörg að auki svo óljós við þreifingu að þau hefðu líklega ekki fundist þannig.

 

Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands bíður konum 40-69 ára hópleit með brjóstamyndatöku á tveggja ára fresti. Einnig hafa allar konur sjötugar og eldri verið velkomnar í myndatöku frá upphafi, þó að þeim séu ekki send boðunarbréf.

 

Kembileit fyrir leghálskrabbameini.

Skipuleg leghálskrabbameinsleit Krabbameinsfélagsins hefur leitt til þess að mun færri konur en áður fá þennan sjúkdóm eða deyja úr honum. Leitin hefur því verið mikil heilsubót fyrir konur á Íslandi sem njóta þess nú að þetta er almennt ekki sjúkdómur sem ógnar heilsu þeirra eða lífi. Krabbameinsfélag Íslands boðar konur í leghálsstrok á 3ja ára fresti frá 20 ára aldri.

 

Leghálsstrok er einföld og óþægindalítil rannsókn sem tekur stutta stund. Skoðun á frumum sem fást með strokinu sýnir hvort þar er að finna forstigsbreytingar eða leghálskrabbamein á frumstigi. Meðferð á þessum fyrstu stigum er einföld og árangursrík og veldur konunni litlum vandkvæðum.

 

 

Nú er að koma að hinni árlegu krabbameinsleit á heilsugæslustöð Selfoss.  Tímabókanir eru hafnar en leitin stendur yfir frá mánudeginum 6. nóvember til og með þriðjudeginum 14. nóvember.  Viljum við hvetja allar konur til að taka þátt í kembileitinni.

 

f.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

 

Unnur Þormóðsdóttir

Hjúkrunarstjóri heilsugæslunnar á Selfossi