Hvernig er þörf fyrir heimahjúkrun metin?

unnur_steinunnÁ heilsugæslustöðvum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands  hefur verið tekið í notkun RAI- upphafsmat (Raunverulegur aðbúnaður íbúa) sem er alþjóðlegt matstæki til að meta heilsufar, hjúkrunarþarfir og þörf skjólstæðinga fyrir þjónustu heimahjúkrunar.

 

Markmiðið með notkun matstækisins er að forgangsraða þjónustu á samræmdan, áreiðanlegan  og réttmætan hátt  í samræmi við þörf þeirra sem á þurfa að halda. Áður en einstaklingur innskrifast í heimahjúkrun þarf að framkvæma þetta mati. Það gefur þá til kynna hvort umsækjandi þarfnist þjónustu heimahjúkrunar, heimaþjónustu eða sé ekki í þörf fyrir þjónustu.

 

Matstækið var þróað í samvinnu við fimm sveitarfélög á Íslandi og hefur þróun þess staðið yfir um nokkurt skeið og hófst í tengslum við vinnu vegna áforma um flutning málefna aldraðra til sveitarfélaga. Frá 2011 hefur RAI Home Care (RAI HC) verið í notkun í heimaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi.

Niðurstöður eru þær að matið gefi glögga og raunhæfa mynd af heilsufari fólks og þörf þess fyrir þjónustu. Það gefi því kost á málefnalegum og vel rökstuddum, faglegum ákvörðunum og auknu jafnræði þegar ákvörðun er tekin um þjónustu.

 

Ýmislegt bendir til að bæta megi forgangsröðun til að tryggja sem best þjónustu við þá sem eru í mestri þörf fyrir hana og er mælitækið liður í því.

f.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Unnur Þormóðsdóttir hjúkrunarstjóri heilsugæslunnar á Selfossi

Steinunn Birna Svavarsdóttir hjúkrunardeildarstjóri heilsugæslunnar á Selfossi  

 Heimildir:

https://www.velferdarraduneyti.is/frettir-vel/nr/34638

http://www.landlaeknir.is/gaedi-og-eftirlit/heilbrigdisthjonusta/rafraen-sjukraskra/innleiding-rai-mats-i-heimathjonustu/