Hvernig er blóðþrýstingurinn?

Blóðþrýstingur er þrýstingur blóðs í slagæðum líkamans.  Hann er nauðsynlegur til að viðhalda blóðrás til líffæra. 

Það er tiltölulega einfalt að mæla blóðþrýstinginn og flestir geta lært að mæla hann sjálfir heima en þá þarf líka að þekkja gildin.  Talað er um efri og neðri mörk  blóðþrýstings.  Efri mörkin er slagbilsþrýstingur en þá dælir hjartað blóði  út í slagæðarnar.  Neðri mörkin er hlébilsþrýstingur en þá slakar hjartað á  og  fyllist af blóði á ný.   Ef blóðþrýstingurinn mælist endurtekið undir 130mmhg ( sem er mælikvarði þrýstings) í efri mörkum og 85mmhg í neðri mörkum telst hann eðlilegur.  Ef blóðþrýstingurinn  mælist hins vegar  endurtekið yfir 140mmhg í efri mörkum og yfir 90mmhg  í neðri mörkum er talað um háþrýsting. 

Blóðþrýstingurinn getur oft sveiflast mikið  yfir tíma og ýmsar aðstæður hafa áhrif á það.   Það sem getur haft áhrif er t.d.  á hvaða tíma dagsins hann er mældur,   hreyfing eða áreynsla, streita eða andlegt álag og reiði.   Þess vegna er nauðsynlegt að mæla blóðþrýstinginn nokkrum sinnum til að fá nákvæma niðurstöðu.  

Að vera með of háan blóðþrýsting í langan tíma getur aukið líkurnar á  heilablóðföllum, kransæðastíflu og nýrnabilun. Hjartavöðvinn stækkar og þykknar sem leiðir til þess að hjartað þarf að erfiða meira við að dæla blóði út í líkamann.

Einkenni háþrýstings eru lúmsk, oft finnur fólk ekki fyrir neinum einkennum við vægri hækkun, sumir finna þó fyrir aukinni þreytu eða úthaldsleysi og/eða höfuðverk sérstaklega framan til í höfðinu og einnig er hægt að finna fyrir þrýstingi á bakvið augun.

Helstu áhættuþættir háþrýstings eru: Erfðir, hækkandi aldur, reykingar, offita  sérstaklega kviðfita og  mikil streita eða andlegt álag.

Það er margt hægt að gera  sjálfur til að fyrirbyggja of háan blóðþrýsting, sömuleiðis er líka hægt að snúa við þeirri þróun,  ef  blóðþrýstingur er hækkaður , með breyttum lífsvenjum eins og  reglubundinni hreyfingu, hollu mataræði með ríkulegri ávaxta og grænmetisneyslu, draga úr óhollri fitu og saltríkum mat,  hætta að reykja og síðast en ekki síst að læra slökun. 

Ef þig grunar að þú sért með of háan blóðþrýsting eða vilt bara láta fylgjast með þér er velkomið að leita á næstu heilsugæslustöð í mælingu. 

 

f.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Sigríður B. Ingólfsdóttir

Hjúkrunarstjóri á heilsugæslunni í Hvergerði                                     

Heimildir: Hollráð við háþrýstingi (bæklingur) Hjartavernd.is.