Hvað er klamydía ?

Audbjorg BjarnadKlamydía er kynsjúkdómur sem smitast með bakteríunni Chlamidia trachomatis. Bakterían tekur sér bólfestu á slímhúð kynfæra, þvagrásar eða í endaþarmi og getur valdið bólgum á þessum stöðum. Bakterían getur einnig farið í slímhúð augna, jafnvel í háls og valdið þar sýkingu. Smit á sér stað við samfarir eða munnmök. Smokkurinn er eina vörnin gegn smiti.

Klamydíubakterían er hættuleg því hún getur valdið ófrjósemi hjá konum vegna bólgu í eggjaleiðurum og er klamydía ein algengasta ástæða ófrjósemi ungra kvenna. Mikilvægt er að meðhöndla sjúkdóminn tímanlega og er meðferðin einföld. Sjúkdómurinn er hins vegar oft einkennalaus og því erfitt að greina hann. En komi fram einkenni þá eru þau eftirfarandi:

Konur:

Breytt útferð eða blæðingar á milli tíða

Sviði við þvaglát og/eða tíð þvaglát

Verkir í grindarholi, jafnvel hiti

Karlar:

Glær vökvi, gul eða hvít útferð úr þvagrásinni

Sviði við þvaglát og/eða tíð þvaglát

Eymsli eða verkir í pung.

Ef einkenni koma fram, birtast þau u.þ.b 1-3 vikum eftir kynmök en í einstaka tilvikum fáeinum dögum eftir smit.

Klamydía er greind í þvagprufu hjá báðum kynjum. Einnig er hægt að taka stroku frá leghálsi.

Meðhöndlun er með sýklalyfjum og er mikilvægt að ljúka við skammtinn. Nauðsynlegt er að bólfélagi fái sömu meðhöndlun, annars er hætta á endurteknu smiti. Það má ekki hafa samfarir í allt að viku til tíu daga frá því að meðferð hefst, allt eftir því hvaða meðferð er gefin. Ef einkenni hverfa ekki verður að taka nýja prufu, þó ekki fyrr en 3-4 vikum eftir að meðferð lýkur.

Ef klamydía greinist eru miklar líkur á því að bólfélagar síðustu 6 mánaða séu með sjúkdóminn. Skylda er að gefa upplýsingar um bólfélaga svo að þeir geti fengið meðhöndlun.

Ráðlagt er að allir sem stunda skyndikynni fari reglulega í kynsjúkdómaskoðun, til dæmis hjá hjúkrunarfræðingi eða lækni á næstu heilsugæslustöð eða hjá á húð- og kynsjúkdómadeild Landspítalans.

Hefur þú farið í tékk ?

 

 

f.h. heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Auðbjörg Brynja Bjarnadóttir, ljósmóðir

Hjúkrunarstjóri heilsugæslunnar á Klaustri