Hvað er Human Papilloma Virus, HPV ?

Auðbjörg BjarnadHPV er veira sem hefur fylgt mannkyninu í milljónir ára og er algengasti kynsjúkdómurinn. Yfir 100 tegundir eru þekktar og um 40 þeirra geta sýkt húð og slímhúðir á kynfærasvæði kvenna og karla, en geta einnig valdið sýkingu í munni og koki. Sumar af þessum HPV veirum valda t.d kynfæravörtum, aðrar frumubreytingum í leghálsi og um 14 þeirra gera valdið krabbameini.

HPV smitast við snertingu, oftast við kynmök í leggöng eða endaþarm en getur líka smitast við munnmök, við snertingu kynfæra t.d með fingrum eða með notkun hjálpartækja.

HPV getur smitast milli gagnkynhneigðra, samkynhneigðra eða tvíkynhneigðra án þess að sýktur aðili hafi nokkur einkenni. Flestir sýktir einstaklingar vita hvorki af því að þeir eru með HPV sýkingu né að þeir eru að smita aðra við kynmök því í flestum tilvikum veldur HPV ekki einkennum. Einnig er hægt að smitast af fleiri en einni tegund af HPV. Aukin áhætta fylgir frjálsræði beggja kynja í kynlífi og mest er áhættan hjá stúlkum sem byrja mjög ungar að lifa kynlífi.

Krabbameinsvaldandi HPV veira, þ.e veira sem ónæmiskerfið vinnur ekki á getur verið hættuleg. Slík sýking getur valdið frumubreytingum og ef hún er ekki greind með leghálssýni getur hún þróast í leghálskrabbamein. Oftast líða nokkur ár eða áratugir frá því að sýking á sér stað þar til leghálskrabbamein myndast. Unnt er að fjarlægja frumubreytingar áður en þær þróast í leghálskrabbamein með keiluskurði.

Hér á landi er 12 ára stúlkum boðin bólusetning gegn leghálskrabbameini með bóluefninu Cervarix. Þó svo að kona sé bólusett þarf að mæta í leghálskrabbameinsleit því að bólusetningin er gegn tveimur algengustu veirunum sem geta valdið leghálskrabbameini. Til að fá fullkomna vörn gegn þeim, þarf að bólusetja áður en kynlíf hefst.

Eina leiðin til að vita hvort að kona sé smituð af HPV veiru er að mæta reglulega í leghálskrabbameinsleit þegar boðunarbréf berst.

 

f.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

 

Auðbjörg Brynja Bjarnadóttir

Hjúkrunarstjóri heilsugæslunnar á Kirkjubæjarklaustri