Hvað er hjartabilun og lokusjúkdómar

utskriftHjartabilun verður þegar hjartavöðvinn nær ekki að dæla frá sér nægilegu magni af blóði til að mæta efnaskiptaþörfum líkamans. Hjartabilun getur orsakast af starfstruflun í annað hvort slagbils- eða hlébilsþrýstingi. Hjartabilun er eini alvarlegi hjarta og æðasjúkdómurinn þar sem nýgengi, tíðni og dánartíðni fer vaxandi. Klínísk einkenni hjartabilunar eru t.d. mæði, bæði við áreynslu og í hvíld, brakhljóð í lungum, ógleði, þróttleysi, aukinn vökvasöfnun í líkamanum, s.s. bjúgur og kviðarholsvökvi, hraðtaktur og hjartaöng. Ólíkt því sem gerist í hjartaöng þá hverfa einkennin ekki við hvíld heldur þarf að meðhöndla ástandið með ýmsum lyfjum eftir tegund hjartabilunar.

Lokusjúkdómar geta stafað af áunnu eða meðfæddu ástandi líkamans. Þá verður truflun í starfsemi hjartaloka sem einkennist af þrengslum eða bakflæði blóðs til hjartans. Þegar þrengsli myndast í lokunum verður hindrun á blóðflæði frá hjartanu. Sem dæmi, þegar þrengsli myndast í ósæðarloku eða í lungnaslagæðarloku, þá verða gáttir hjartans að erfiða meira til að koma nægilegu magni blóðs í gegnum lokurnar. Með bakflæði er átt við að hjartalokurnar leki og þegar það á sér stað streymir blóð aftur í aðliggjandi hjartahólf. Bæði þrengsli og bakflæði í hjartanu leiða til stækkunar hluta hjartavöðvans sem aftur getur leitt til hjartabilunar ef ekkert er að gert. Einkenni hjartalokusjúkdóma geta verið t.d. brjóstverkur, yfirlið, mæði, þróttleysi, kviðarholsvökvi, hjartaöng og gáttatif. Meðferð með lyfjum getur viðhaldið virkni hjartans, s.s. meðferð með hjartaörvandi- eða þvagræsilyfjum. Ef hins vegar einkenni aukast eða versna getur þurft að grípa til skurðaðgerðar. Þá er gert við þær hjartalokur sem hefta eðlilega starfsemi hjartans eða þeim skipt út. 

 

 

f.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Lyflæknisdeild HSU á Selfossi

 

Gerður Sif Skúladóttir hjúkrunarfræðingur

Jóna Sif Leifsdóttir hjúkrunarfræðingur

Kristjana Sigurveig Sveinsdóttir hjúkrunarfræðingur

Sunna Björk Bjarnadóttir hjúkrunarfræðingur