Hvað er hjartaáfall ?

Birna GestsdottirHjartaáfall getur framkallast þegar kransæðarnar (sem eru æðarnar sem sjá hjartanu fyrir súrefni) eru orðnar þröngar og blóðflæðið um þær er skert. Þá er hætta á að það hlaðist upp blóðtappi sem getur stíflað æðina alveg, þá kemst súrefni ekki til hjartavöðvans og til verður skemmd eða jafnvel drep í vöðvanum.

Undanfari hjartaáfalls getur tekið langan tíma. Þegar einstaklingur reynir á sig, hækkar púlsinn og hjartað slær hraðar. Við það ná kransæðarnar ekki að koma súrefni til hjartans og fram koma einkenni eins og þreyta, mæði, slappleiki, minnkað þol og veikindatilfinning. Fólk lýsir því þannig að bara það að ganga upp nokkrar tröppur verði eins og að fara yfir heilt fjall. Þetta eru oft óljós einkenni og geta átt við marga aðra sjúkdóma en eru samt viðvörunareinkenni áður en viðkomandi fær eiginlegt hjartaáfall.

 

Hefðbundnum einkennum hjartaáfalls er yfirleitt lýst sem:

  • þrýstingi, taki eða sársauka fyrir miðju brjósti sem varir lengur en fáeinar mínútur eða kemur og fer
  • Óþægindum fyrir brjósti, sem fylgja svimi, yfirlið, ógleði, sviti og mæði
  • þyngslum eða verk fyrir brjósti sem leiðir út í vinstri handlegg og/eða upp í háls

Þessum þyngslum lýsir fólk oft þannig að það sé eins og fíll sé að stíga á brjóstkassann á því. Öðrum einkennum er lýst sem þyngslum eða verkjum í efri hluta líkamans, hægri handlegg, hálsi, kjálka eða aftur í bak, andþyngslum, ógleði, svimatilfinningu og köldum svita..

Meðferð við hjartaáfalli ber mestan árangur ef hún hefst innan við 60 mínútum eftir að áfallið á sér stað og því mikilvægt að koma einstaklingi sem fengið hefur hjartaáfall undir læknishendur strax.

Hringja skal strax í 112 ef grunur leikur á að um hjartaáfall sé að ræða.

 

f.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Birna Gestsdóttir

Hjúkrunarfræðingur á sjúkradeild HSU á Selfossi