Hvað er heimahjúkrun ?

Steinunn Birna SvavarsdóttirMarkmið heimahjúkrunar er að veita einstaklingshæfða, markvissa, árangursríka og faglega heimahjúkrun, með það að markmiði að gera þeim, sem þjónustunnar njóta, kleift að búa heima við sem eðlilegastar aðstæður þrátt fyrir veikindi, heilsubrest eða öldrun.

Við heimahjúkrun starfa hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar í samvinnu við heimilislækna. Mikið samstarf er einnig við félagsþjónustu og veitendur annarrar stoðþjónustu.
Beiðni um heimahjúkrun getur komið frá einstaklingnum sjálfum, aðstandendum, sjúkrahúsum eða öðrum stofnunum.

Þegar beiðni hefur borist heilsugæslunni kemur hjúkrunarfræðingur í vitjun, metur hjúkrunarþörf og skipuleggur þjónustuna í samvinnu við einstaklinginn og aðstandendur. Ákvörðun um að veita heimahjúkrun byggist á mati hjúkrunarfræðings sem byggt er á upplýsingasöfnun. Áhersla er lögð á að meta hvort og hvernig heimahjúkrun mun bæta/styðja við heilbrigði einstaklingsins og fjölskyldu hans. Metin er þörf fyrir hjálpartæki ef við á og umsókn gerð t.d. fyrir baðbretti, göngugrindur o.fl.
Starfið felur í sér fjölbreytta umönnun, andlega og líkamlega þar sem aðstoð er veitt við það sem einstaklingurinn getur ekki sjálfur. Leitast er við að viðhalda og auka færni. Heimahjúkrun býður ekki upp á þjónustu er felur í sér fasta viðveru eða yfirsetu, slíkt kemur frá félagslegri heimaþjónustu sem er á vegum sveitarfélagsins.

Starfsfólk heimahjúkrunar metur hversu lengi skjólstæðingur þarfnast þjónustu. Útskrift er ákveðin í samráði við einstaklinginn og aðra þá sem að málinu koma. Lögð er áhersla á að þótt einstaklingurinn sé formlega útskrifaður, geti hann haft samband við heimahjúkrun, ef á þarf að halda.

Vinnutími hjúkrunarfræðinga er að öllu jöfnu dagvinna frá kl. 8 – 16 virka daga. Kvöld og helgarþjónusta er í formi léttrar hjúkrunar sem er á valdi sjúkraliða. Sértæk þjónusta hjúkrunarfræðinga er alla jafna ekki í boði nema í undantekningatilfellum og þá í skemmri tíma, eins og í alvarlegum tímabundnum veikindum og við líknandi meðferð þegar skjólstæðingur óskar eftir að fá að deyja heima.

Heimahjúkrun er tímabundin þjónusta sem veitt er meðan þörf er á einstaklingshæfðri og faglegri hjúkrunarþjónustu. Þegar meðferðarmarkmiðum er náð og heilsufarsleg vandamál hafa verið leyst eða komið í viðunandi horf er gert ráð fyrir að viðkomandi útskrifist. Haft er samband við heimilislækni eða þann fagaðila sem óskaði eftir þjónustunni og gerð grein fyrir niðurstöðu meðferðar og útskrift.

Heimahjúkrun er skjólstæðingum að kostnaðarlausu og eiga allir aldurshópar jafnan rétt til hennar.

 

 

f.h. hjúkrunarfræðinga á heilsugæslustöð Selfoss HSU

Steinunn Birna Svavarsdóttir

 

Untitled-1