Hvað er Heilsuvera ?

Heilsuvera er vefur fyrir almenning um heilsu og áhrifaþætti hennar. Með Heilsuveru er leitast við að auka aðgengi almennings að upplýsingum um sín mál innan heilbrigðisþjónustunnar og jafnframt að koma á framfæri áreiðanlegri þekkingu um þroska, heilsu og áhrifaþætti heilbrigðis. Inn á „Mínum síðum“ er öruggt vefsvæði þar sem hægt er að eiga í samskiptum við starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar og nálgast gögn úr sjúkraskrá.

 

Með aðgangi að Heilsuveru geta einstaklingar nú fengið yfirsýn yfir lyfjanotkun sína, sótt rafrænt um endurnýjun lyfseðla, séð stöðu lyfseðla í lyfseðlagátt, séð ofnæmi sem hefur verið skráð í sjúkraskrá, séð framkvæmdar bólusetningar, átt örugg rafræn samskipti við heilbrigðisstarfsmenn og bókað tíma rafrænt á heilsugæslustöð. Auk þess er hægt að fá aðgang að upplýsingum eigin barna að 16. ára aldri, en aldurstakmarki var breytt úr 15. ára í 16. ára aldur í febrúar 2017.

 

Markmið með Heilsuveru

  • Veita almenningi rafrænan og öruggan aðgang að eigin heilbrigðisupplýsingum.
  • Auka þjónustu við almenning í heilbrigðiskerfinu þannig að einstaklingar geti nálgast eigin heilbrigðisupplýsingar án tafar, hvar og hvenær sem er, óháð því á hvaða heilbrigðisstofnun, heilsugæslustöð eða starfsstofu sérfræðings upplýsingarnar voru skráðar.
  • Gera einstaklingum kleift að eiga í öruggum rafrænum samskiptum við lækna, hjúkrunarfræðinga og aðra heilbrigðisstarfsmenn.
  • Hafa rafrænt eftirlit með áhættuhópum þar sem einstaklingar skrá eigin mælingar og fá fræðslu og ráðgjöf.
  • Veita áreiðanlegar upplýsingar um heilsu og áhrifaþætti heilbrigðis.

 

Aðgangur að Heilsuveru
Til þess að fá aðgang að eigin heilbrigðisupplýsingum í Heilsuveru þarf rafræn skilríki. Rafræn skilríki eru bæði fáanleg á snjallkortum og í farsímum. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu um rafræn skilríki, https://www.skilriki.is/

Til að skrá sig inn í Heilsuveru ferð þú inn á https://www.heilsuvera.is/ 

Til þess að fá aðgang að rafrænum tímabókunum á heilsugæslustöð og endurnýjun lyfjaseðla þarf að vera skráður á heilsugæslustöðina.

Hvet ég  þig lesandi góður, til að kynna þér og nýta heilbrigðisgáttina þína!

 

 

f.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Auðbjörg Brynja Bjarnadóttir

Hjúkrunarstjóri Heilsugæslustöðinni Kirkjubæjarklaustri,

 

Heimildir: landlaeknir.is