Hugsanleg líkamleg áhrif ösku frá eldgosum

Vegna umræðna undanfarið um hugsanleg líkamleg áhrif ösku frá eldgosum vill sóttvarnalæknir upplýsa um eftirfarandi.


Erlendar rannsóknir á einstaklingum sem útsettir hafa verið fyrir miklu öskufalli hafa leitt í ljós að einkum má búast við að sjá bráð einkenni frá öndunarvegum og augum í miklu öskufalli. Þessi einkenni eru einkum erting í slímhúð og augum, þyngsli fyrir brjósti og öndunarerfiðleikar. Einstaklingar með undirliggjandi langvarandi öndunarfærasjúkdóma eins og COPD eru einkum í hættu að fá bráð einkenni og því mikilvægt að þeir taki sín fyrirbyggjandi lyf samviskusamlega.

Erfitt er að spá fyrir um hættu á bráðum einkennum eingöngu útfrá magni svifryks í andrúmslofi en í grófum dráttum má styðjast við áður útgefnar leiðbeiningar frá sóttvarnalækni, Umhverfisstofnun og almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra (http://www.ust.is/Adofinni/Frettir/nr/6573, http://almannavarnir.is/upload/files/Heilsutjon_Oskufall_20100420%20linkar.pdf).


Rannsóknir á hættunni á langvinnum áhrifum öskufalls hafa leitt í ljós að líkur á langvinnum alvarlegum öndunarfærasjúkdómum eru litlar. Hins vegar vantar ítarlegar framvirkar rannsóknir til að svara því hver áhættan raunverulega er.


Á næstu dögum mun hefjast rannsókn á heilsufarslegum afleiðingum ösku og annarra efna frá eldgosinu í Eyjafjallajökli. Rannsóknin er á vegum sóttvarnalæknis og er unnin í samvinnu við sóttvarnalækna og heilbrigðisstarfsmenn á Suðurlandi, lækna lungnadeildar Landspítalans og fleiri aðila. Rannsóknin mun fyrst og fremst ná til þeirra sem orðið hafa fyrir hvað mestu öskufalli í námunda við eldstöðina undanfarnar vikur. Markmiðið er að meta hugsanleg bráð heilsufarsleg áhrif gjóskunnar, gildi sóttvarnaráðstafana sem beitt hefur verið og hvort grípa þurfi til frekari ráðstafana. Ennfremur er áætlað að meta langtíma áhrif öskufalls á heilsufar.