HSu tekur við sjúkraflutningum 1. jan. nk.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSu) tekur við sjúkraflutningum í Árnessýslu 1. janúar nk.  Síðustu mánuðina hefur verið unnið að undirbúningi þessara breytinga.  Sjúkraflutingamenn hafa verið ráðnir til starfa og hafa þeir verið í starfskynningu og þjálfun að undanförnu.Umsjónarmaður sjúkraflutninga hefur verið ráðinn Ármann Höskuldsson, en hann hefur starfað sem lögreglu- og sjúrkaflutningamaður undanfarin ár hjá Sýslumannsembættinu í Árnessýslu.  Hefur Ármann haft umsjón með undirbúningi varðandi flutning sjúkraflutninga til HSu.  Undirbúningur er nú á lokastigi og verður HSu ekkert að vanbúnaði við að taka við sjúkraflutningunum um áramótin.

Fyrst um sinn munu sjúkraflutningarnir hafa aðstöðu áfram í sjúkrabílageymslunni við lögreglustöðina, á heilbrigðisstofnuninni og hjá björgunarfélaginu í Tryggvabúð. 
Viðræður hafa verið í gangi milli HSu, Brunavarna Árnessýslu (BÁ) og Björgunarfélags Árborgar um samstarf við byggingu húsnæðis fyrir þjónustu þessara aðila.  Unnið er að því að fá samþykki stjórnvalda fyrir slíku samstarfi.


Til að boðun sjúkrabifreiða verði með sem tryggustum hætti er mikilvægt, að haft sé samband við Neyðarlínuna, sími 112, þegar kalla þarf út sjúkrabíl.