HSU færðar góðar gjafir

Þriðjudaginn 24. september 2019 heimsóttu nokkur félagasambönd HSU og var tilefnið að færa stofnunni formlega gjafir.  Þetta voru fulltrúar frá Sambandi sunnlenskra kvenna, Lions Selfossi og Krabbameinsfélag Árnessýslu. 

 

Samband sunnlenskra kvenna færði HSU átta lífsmarkamæla að gjöf, samtals að andvirði um 3 milljóna króna. Mælarnir fara á heilsugæslustöðvarnar í Hveragerði, Þorlákshöfn, Laugarási og Hellu og einnig á fæðingardeild, lyflækningardeild og hjúkrunardeildir á Selfossi.  Tækið eru færanlegt á hjólastandi, svo hægt er að fara með það milli herbergja, tækið mælir blóðþrýsting, púls, hita og súrefnismettun. Nokkrar stærðir af hulsum fylgdu einnig með, svo hægt er að mæla ung börn eða fullorðið fólk með misstóra handleggi. Tækin koma sér einstaklega vel og er kærkomin viðbót í tækjabúnað deildanna. 

Lions Selfossi gaf HSU æðasjá eða æðaskanna.  Tækið er á hjólastandi og færanlegt og er frábær viðbót í tækjabúnað HSU. Það verður notað á Selfossi á göngudeild, bráðamóttöku og lyflækningadeild.  Tækið sýnir mjög vel æðar í sjúklingi og auðveldar þannig starfsmönnum að finna góðar æðar til að sprauta í eða setja upp æðalegg og léttir mjög á sjúklingnum sjálfum að þurfa ekki að fá aukastungur við leit að æð.  Lions gaf einnig tvo hvíldarstóla, sjónvarpstæki og heyrnatól sem notuð verða á göngudeild.  Heildarandvirði gjafarinnar frá Lions er um 1,3 milljónir króna.

Krabbameinsfélag Árnessýslu færði stofnunni lífsmarkamæli að andvirði rúmlega 560 þús króna.  Tækið er einnig á færanlegum á hjólastandi og er samskonar tæki og SSK gáfu og er lýst hér ofar.  það tæki verður notaða á göngudeild HSU Selfossi og fylgja því einnig nokkrar stærðir af hulsum fyrir misstóra handleggi.  Tækið kemur sér sömuleiðis einstaklega vel og mun nýtast vel á deildinni.

 

Öll þessi félagasamtök hafa í gegnum árin stutt vel og dyggilega við stofnunina og er sá stuðningur ómetanlegur og verður seint fullþakkaður.  HSU sendir því öllu því góða fólki þakklætiskveðjur, sem starfar innan þessara félaga.