Hópslysaæfing á sumardaginn fyrsta

IMG_7154

Ljósm. Ármann Höskuldsson

Heilbrigðisstofnun Suðurlands er aðili að hópslysaæfingu sem verður haldin þann 21. apríl 2016 við gömlu brúnna yfir Þjórsá. Þar verða æfð viðbrögð við rútuslysi með töluverðan fjölda slasaðra og reynt að hafa æfinguna sem líkasta raunveruleikanum.

Viðbragðsaðilar á svæðinu verða allir með á æfingunni og undirbúningur hefur staðið yfir undanfarna mánuði. Í æfingastjórn eru Pétur Pétursson slökkvistjóri hjá Brunarvörnu Árnessýslu, Lárus Kristinn Guðmundsson í svæðisstjórn björgunarsveita, Víðir Reynisson fulltrúi hjá Lögreglustjóraembættinu á Suðurlandi og Styrmir Sigurðarson yfirmaður sjúkraflutninga á Suðurlandi hjá HSU. Æfingin verður framkvæmd eins nálægt raunaðstæðum eins og hægt er og virkjuð verður aðgerðastjórn á Suðurlandi og samhæfingastöð almannvarna í Skógarhlíð. Starfsmenn HSU verða meðal annarra í lykilhlutverki í þessari æfingu en megin markmiðið er að stilla saman mismuandi viðbragaðsaðila og samhæfa viðbrögð og bjargir. Sá þáttur sem snýr að HSU lítur einkum að samhæfingu sjúkraflutninga og viðbrögðum á bráðmóttöku á Selfossi.  Æfð verða viðbrögð við komu margra sjúklinga með mismunandi mikla áverka á sjúkrahúsið á Selfossi, virkjun heilsugæslustöðva og hvernig unnið er úr þeim úrræðum sem heilbrigðisstofnunin hefur yfir að ráða.  Æfingin er kærkomin liður í að æfa viðbragð við mögulegum stórslysum og gefur tækifæri til að fara yfir alla ferla innahúss til að tryggja sem bestan undirbúning fyrir raunaðstæður.

 

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU.