Munntóbak Skaðlaust eða Skaðlegt ?

Unnur ÞormóðsdóttirHSU heilsuhorn

 

 

 

 

 

Notkun munntóbaks hefur færst í aukana sérstaklega á meðal ungs fólks. Margir eru haldnir þeim ranghugmyndum að munntóbak sé skaðlaust eða að minnsta kosti skaðlausara en reykingar.

 

Þetta er alfarið rangt !

Í munntóbaki eru a.m.k. 28 þekktir krabbameinsvaldar og sumir í mun meira magni en í sígarettum. Sá sem notar 10 gr. af munntóbaki á dag fær allt að þrisvar sinnum meira af ýmsum krabbameinsvaldandi efnum en sá sem reykir 1 pakka af sígarettum á dag. Sá sem notar munntóbak er í 50 sinnum meiri hættu á að fá krabbamein í munn auk þess sem hætta á krabbameini í meltingarvegi eykst til muna.

Munntóbak veldur æðasamdrætti sem minnkar blóðflæði til vefja líkamans, af þeim völdum hækkar blóðþrýstingurinn sem aftur er einn helsti áhættuþáttur hjarta- og æðasjúkdóma

Ungt fólk getur líka fengið hjarta-og æðasjúkdóma!

Þeir sem vilja standa sig vel í íþróttum ættu að forðast notkun munntóbaks. Áhrif æðasamdráttar á vöðva eru þau að blóðflæði til þeirra minnkar þannig að vöxtur og styrking þeirra verður verri en ella, þjálfun verður lakari, meiri líkur verða á meiðslum og erfiðara verður að ná sér af þeim.

Munntóbak er ávanabindandi, ástæður fyrir mikilli fíkn eru meðal annars vegna þess að:

  • það er fjórum sinnum meira magn af nikótíni í munntóbaki en sígarettum
  • Oft er bætt út í munntóbak saltkristöllum sem brenna göt á slímhúðina í munninum sem aftur veldur því að nikótínið á greiðari aðgang beint út í blóðið.

Enn erfiðara getur verið að hætta notkun munntóbaks en reykingum!

Munntóbak veldur gulum og skemmdum tönnum, bólgnu tannholdi og rýrnun góma. Einnig verður mjög fljótt breyting á slímhúð í munni. Vegna þessa verður sá sem notar munntóbak mjög andfúll og tennur hans geta losnað.

Það gefur auga leið að þeir sem troða þessu í vörina verða heldur afkáralegir í framan fyrir utan sóðaskapinn sem þessu fylgir.

Við hvetjum alla sem halda að munntóbak sé hættulítið að staldra við og muna að

Munntóbak er hættulegt og ávanabindandi !

Foreldrar athugið að ef þið finnið sprautur hjá börnunum ykkar sem búið er að skera að einhverju leiti framan af gætu það verið merki um að þau séu farin að fikta við að nota munntóbak.

http://www.landlaeknir.is/Pages/499

f.h. hjúkrunarfræðinga á heilsugæslustöð Selfoss HSU

Unnur Þormóðsdóttir, hjúkrunarstjóri

 

skaðsemi munntóbaks