Höfuðlús

Sigríður Björg IngólfsdóttirHöfuðlús

Höfuðlúsin kemur upp á hverju ári í grunnskólum og leikskólum landsins. Talið er að hún hafi borist hingað fyrst með landnámsmönnum og þótti mönnum það merki um heilbrigði hér áður fyrr ef á þeim þrifust lýs.  Fullorðin lús er um 2-3 mm á stærð, með sex fætur , stutta fálmara á höfði og hún nærist á blóði úr hársverðinum.

Líftími lúsarinnar

Kvenkyns lús lifir í 3-4 vikur. Hún verpir eggjum alveg niður við hársvörðinn þar sem mesti hitinn er og þau kallast nit. Nitin klekjast út eftir 6-10 daga og eftir situr tómt hylkið ca 4-6 mm frá hársverðinum. Lúsin verður kynþroska eftir 7-10 daga og þá getur hún verpt allt að 10 eggjum á dag þar til hún drepst.   Hún getur lifað mest í einn sólarhring án næringar.

Smitleiðir

Lúsin getur skriðið á milli hausa við beina snertingu en hún getur hvorki stokkið flogið né synt og hún smitast eingöngu frá manni til manns ekki fyrir milligöngu dýra. Lúsin verður fljótt löskuð þegar hún dettur úr hárinu og út í umhverfið, því er talið ólíklegt að smit verði með innanstokksmunum en hún getur borist á milli með greiðum, burstum, húfum og þess háttar sem notað er af fleirum en einum.  

Meðferð við lúsasmiti

Ef lús greinist í hári, þá þarf að meðhöndla strax.   Margt hefur breyst á síðustu áratugum hvað varðar meðhöndlun og hafa komið á markaðinn efni sem lúsin getur ekki myndað ónæmi gegn og þau eru einnig mildari í hársvörð barnanna.   Algengustu efnin á markaðnum í dag eru hedrin, licener og paranix. Nýlega hefur komið á markaðinn rafmagnskambur sem drepur lúsina og nit hennar með rafstuði og getur hann gangast vel við að greina lúsina og nota eftir meðferð með lúsasjampói.  Mikilvægt er að kemba öllum heimilismönnum, þvo rúmfatnað við 50-60°C, frysta fatnað sem þolir ekki heitan þvott og hella sjóðandi vatni yfir bursta og greiður. Umfram allt þarf svo að kemba hárið reglulega á t.d. 4 daga fresti næstu 2-3 vikurnar til að tryggja að árangur hafi náðst.

f.h. heilsugæslunnar í Hveragerði, HSU

Sigríður B. Ingólfsdóttir

Hjúkrunarstjóri

Heimildir: www.landlæknir.is, www.ni.is, visindavefur.is, bæklingur : að fanga höfuðlúsina

 

lús