Hjúkrunarstýrð þjónusta heilsugæslunnar á Selfossi við íbúa

Unnur ÞormóðsdóttirÁ heilsugæslunni á Selfossi fer fram víðtæk þjónusta við íbúa svæðisins. Stöðin hefur á að skipa hópi sérhæfðra hjúkrunarfræðinga sem hafa sérmenntað sig á mismunandi sviðum. Stöðin er ein sú öflugasta á landinu og eru í boði margar hjúkrunarstýrðar móttökur sem reknar eru í samstarfi við heimilislækna stöðvarinnar.

Móttaka fyrir astma- og lungnasjúklinga er ætluð langveikum einstaklingum með astma og aðra lungnasjúkdóma. Meginmarkmið hjúkrunarþjónustunnar eru að viðhalda og auka lífsgæði ásamt því að draga úr eða koma í veg fyrir versnandi sjúkdómsástandi. Fræðslan er samtvinnuð í samræðurnar og í samræmi við áherslur sjúklings. Hjá sjúklingum með astma eða langvinna lungnateppu má búast við fræðsluþörfum tengdum lyfjum, lyfjanotkun, öndun, svefni, næringu og hreyfingu. Einnig er sérhæfð þjónusta fyrir foreldra með börn með astma. Móttakan er opin á þriðjudögum frá klukkan 15:00 til 16:00. Rut Gunnarsdóttir er hjúkrunarfræðingur móttökunnar rut.gunnarsdottir@hsu.is

Unglingamóttakan er opin unglingum og ungu fólki á aldrinum 15 til 20 ára. Markmið með unglingamóttöku er að vinna að bættum lífsgæðum og aðstæðum unglinga og ungs fólks með því að:

– hvetja með fræðslu til bættrar sjálfsmyndar, sjálfsöryggis og stuðla að jákvæðu félagsumhverfi unglinga
– bæta geðheilbrigði með aukinni þjónustu til þeirra sem eiga við tilfinningaleg vandamál að stríða, kvíða, depurð og einelti
– draga úr reykingum ungs fólks, áfengis-og vímuefnaneyslu
– draga úr ótímabærum þungunum ungra kvenna með því að gera getnaðarvarnir aðgengilegri ásamt fræðslu um siðfræði kynlífs og barneigna,
– draga úr afleiðingum kynsjúkdóma s.s. ófrjósemi

Móttakan er á heilsugæslunni á Selfossi á föstudögum frá klukkan 15:00 til 16:00. Hægt er að senda fyrirspurnir í netpósti, sem reynt verður að svara eftir föngum. Ekki þarf að panta tíma og þjónustan er gjaldfrí. Rut Gunnarsdóttir er hjúkrunarfræðingur móttökunnar rut.gunnarsdottir@hsu.is

Lífsstílsmóttaka stuðningur og meðferð fyrir ofþunga. er í boði fyrir einstaklinga sem eru með líkamsþyngdarstuðul yfir 40. Markmiðið er að kenna fólki að tileinka sér heilbrigðan lífsstíl með því að veita fræðslu, aðhald og hvatningu. Stuðningurinn felst í einstaklingsviðtölum sem hafa það að markmiði að aðstoða fólk til hollra lífshátta. Bjarnheiður Böðvarsdóttir er hjúkrunarfræðingur móttökunnar. Þeir sem vilja komast að þurfa að fá tilvísun frá heimilislækni eða hafa samband á bjarheidur.bodvarsdottir@hsu.is Samstarf er við hreyfistjóra stofnunarinnar, Ölmu Oddsdóttur sjúkraþjálfara.  

Móttaka fyrir sykursjúka er opin tvisvar sinnum  í viku, þriðjudaga og föstudaga, kl 13:00 –  16.00, tímapantanir eru alla virka daga í síma 432-2000. 

Markmið sykursýkismóttökunnar er að stuðla að auknum lífsgæðum sykursjúkra og koma í veg fyrir alvarlega fylgikvilla. Það er gert með reglulegu eftirliti, fræðslu og meðferð. Hugmyndafræði sjálfseflingar leggur áherslu á að markmið kennslu og meðferðar sé að hvetja til upplýstrar ákvarðanatöku, þar sem fólk með sykursýki og fjölskyldur þeirra bera ábyrgð á og stjórna meðferð sinni í samvinnu við fagfólk og beri sjálft meginþungann af daglegri umönnun. Reglulegt eftirlit er mikilvægt þar sem sjúkdómurinn breytist oft með tímanum og áherslur í meðferð þar með. Hjúkrunarfræðingur móttökunnar er Rut Gunnarsdóttir rut.gunnarsdottir@hsu.is

Reykleysismóttakan er opin öllum þeim sem vilja fá aðstoð og stuðning við að hætta að reykja. Móttakan er alla fimmtudaga kl. 08-10 á heilsugæslustöðinni á Selfossi. Meðferðin er byggð upp sem einstaklingsmeðferð og samanstendur af viðtölum og símaeftirfylgd. Einstaklingur fær aðstoð og leiðbeiningu við að ákveða hvaða leið hentar best til þess að hætta að reykja. Einstaklingar sem vilja komast í meðferð geta fengið tilvísun frá heimilislækni eða haft samband beint við Jóhönnu Valgeirsdóttur hjúkrunarfræðing í síma 432-2000 eða senda tölvupóst á netfangið johanna.valgeirsdottir@hsu.is

Á heilsugæslunni á Selfossi er boðið upp á sérstakan stuðning við mæður nýfæddra barna sem finna fyrir vanlíðan og þunglyndi eftir fæðingu, einnig er sérstakur stuðningur við foreldra óværra barna. Anna Guðríður Gunnarsdóttir hjúkrunarfræðingur heldur utan um þessa þjónustu anna.gudridur.gunnarsdottir@hsu.is

Hjúkrunarfræðingar veita sérhæfða sárameðferð ásamt ráðgjöf til sjúklinga. Hægt er að panta tíma í sárameðferð á heilsugæslustöð Selfoss í síma 432-2000

Fyrirtækjaþjónusta hefur verið starfrækt með góðum árangri til margra ára þar sem fyrirtækjum er boðið að kaupa heilsufarsmælingar, bólusetningar og fræðslu fyrir starfsfólk sitt. Þau fyrirtæki sem hafa áhuga á slíkri þjónustu er bent á að hafa samband við Unni Þormóðsdóttur hjúkrunarstjóra unnur.thormodsdottir@hsu.is eða Steinunni Birnu Svavarsdóttur deildarstjóra steinunn.birna.svavarsdottir@hsu.is

 

 

f.h. heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Unnur Þormóðsdóttir

Hjúkrunarstjóri heilsugæslunnar á Selfossi