Hjúkrunarstjóraskipti á heilsugæslustöðinni í Laugarási

Rán Jósepsdóttir hefur verið ráðin hjúkrunarstjóri á heilsugæsluna í Laugarási og mun hefja störf þann 1. mars n.k. Rán hefur áður starfað á HSU, tímabundið á heilsugæslunni á Selfossi en s.l. 10 ár hefur hún starfað sem deildarstjóri á Hjúkrunarheimilinu Lundi á Hellu.

Rán lauk BS námi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 2003, einnig hlaut hún kennsluréttindi þaðan árið 2010. Rán hefur stundað kennslu við sjúkraliðabraut FSu og hún er einnig meðlimur í Flugbjörgunarsveitinni á Hellu og hefur sótt fjölmörg námskeið tengd því starfi.

Rán tekur við af Önnu Ipsen fráfarandi hjúkrunarstjóra í Laugarási, en hún lætur af störfum sökum aldurs eftir 14 ára starf  sem hjúkrunarstjóri, eða frá árinu 2004, en áður hafði Anna starfað sem hjúkrunarfræðingur á heilsugæslustöðinni í yfir 20 ár.

Um leið og við þökkum Önnu fyrir farsælt og óeigingjarnt starf í Laugarási og óskum henni velfarnaðar í framtíðinni bjóðum við Rán innilega velkomna til starfa og óskum henni velfarnaðar í sínu nýja starfi.