Hjúkrunarmóttökur heilsugæslu Selfoss – sérhæfð þjónusta

Rut Gunnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur var með fyrirlestur á „Hjúkrunarþingi 2012“ sem haldið var á Grand Hótel 2. nóvember og sagði frá hjúkrunarmóttökum sem starfræktar eru á heilsugæslu Selfoss. Á hjúkrunarþinginu var áhersla lögð á samvinnu mismunandi fagfólks í heilbrigðisþjónustu með virkri þátttöku þeirra sem sækja þjónustuna. Heilsugæsla er hagkvæmasta og skilvirkasta eining nútíma heilbrigðisþjónustu. Hún er forsenda þess að ná betri árangri í að efla heilsu í samfélaginu, auka skilvirkni og mæta aðsteðjandi ógn flókinna, langvinnra sjúkdóma. Víða erlendis hefur verið hafist handa við að endurmeta starfsemi heilsugæslunnar út frá þessu sjónarmiðum. Á síðasta áratug hefur sérhæfðum hjúkrunarmóttökum og ferliþjónustu fjölgað hratt í hinum vestræna heimi. Með sérhæfðri hjúkrunarþjónustu innan heilbrigðisþjónustunnar er betur hægt að takast á við vandamál fólks, sem haldið er langvinnum sjúkdómum, með eftirliti, mati á heilsufari og meðferð, til hagsbóta fyrir þjónustuþega, stofnunina og samfélagið.