Hjúkrunarfræðingar á HSu ljúka diplómanámi frá HÍ

Þann 16. júní s.l. útskrifuðust frá Háskóla Íslands sex hjúkrunarfræðingar héðan af svæðinu úr diplómanámi í heilsugæsluhjúkrun. Þessir hjúkrunarfræðingar eru allir starfandi á Heilsugæslustöð Selfoss.Diplómanám í heilsugæslu er 20 eininga nám á meistarastigi sem hófst haustið 2005. Náminu er skipt á fjögur misseri og tekur mið af þörfum hjúkrunarfræðinga sem starfa við heilsugæslu eða hafa áhuga á að starfa þar. Mikil áhersla var lögð á forvarnir og gildi þeirra, heimahjúkrun og barnavernd. Er vert að nefna, að kennt var námskeið sem kallast Solihull nálgun, þar er komið fram með nýja nálgun um mat á tengslamyndun foreldra og barna þar sem ákveðinni meðferð er beitt til að styðja við fjölskylduna ef um tengslaraskanir er að ræða. Einnig var annað námskeið sem kallast NCAST feeding scale sem byggist á því að gera hjúkrunarfræðinga enn hæfari í að meta samskipti foreldra og barna. Þessi tvö námskeið hafa aldrei fyrr verið kennd hér á landi og veita hjúkrunarfræðingum ákveðin réttindi þessu tengt.

Heilsugæslustöðin á Selfossi er eina heisugæslustöðin á landinu sem hefur svo marga sérmenntaða hjúkrunarfræðinga og er slíkur mannauður ómetanlegur fyrir samfélagið.
Þeir hjúkrunarfræðingar sem útskrifuðust eru: Anna Guðríður Gunnarsdóttir, Guðrún Kormáksdóttir, Jónína Kristjánsdóttir, Ragnheiður Kristín Björnsdóttir, Steinunn Birna Svavarsdóttir og Unnur Þormóðsdóttir.