Hjúkrunar-og ljósmæðraráð HSu ályktar um fyrirhugaða skerðingu þjónustu

Efni:  Ályktun Hjúkrunar- og ljósmæðraráðs í kjölfar yfirlýsingar heilbrigðisráðherra um breytingar á skipulagi og niðurskurð á þjónustu á HSu.
 
 
Stjórn Hjúkrunar- og ljósmæðraráðs HSu mótmælir harðlega vinnubrögð heilbrigðisráðherra við kynningu og innleiðingu breytinga á heilbrigðisþjónustu HSu. Unnið hefur verið að þessum breytingunum með mikilli leynd og hefur starfsfólki verið haldið í heljargreipum óvissu og ótta um störf sín.
Ráðið harmar þann niðurskurð sem stofnunin stendur frammi fyrir og þá skerðingu á þjónustu Heilbrigðisstofnunarinnar sem íbúar á þjónustusvæði hennar þurfa óhjákvæmilega að horfast í augu við. Heilbrigðisþjónusta er eitt af því sem fólk telur mikilvægast að sé í góðu lagi þegar það velur sér búsetu og góð þjónusta er aðdráttarafl fyrir fólk að setjast að á þessu svæði.
Telur stjórn Hjúkrunar- og ljósmæðraráðs HSu að með því að leggja niður vaktþjónustu á skurðdeild HSu sé öryggi fæðandi kvenna og annarra íbúa svæðisins hér stefnt í hættu. Öllum er ljóst sú mikla slysagildra sem Suðurlandsvegar er og tíðari ferðir fólks til að leita sér læknis- og fæðingarþjónustu í Reykjavík felur óneitanlega í sér aukna hættu auk þess sem hluti hans er fjallvegur, þar sem allra veðra er von og færð oft slæm eða með öllu ófært.
Þessi skerðing á þjónustu stofnunarinnar er ekki í samræmi við þá stefnumörkun sem er í heilbrigðislögum og ljóst að þjónustustig stofnunarinnar við fæðandi konur og skurðsjúklinga mun fara aftur um marga áratugi og hætta er á að hæft og gott starfsfólk hverfi á brott.
Skilur stjórn Hjúkrunar- og ljósmæðraráðs að sparnaðar sé þörf í heilbrigðisgeiranum nú sem aldrei fyrr og hefur Heilbrigðisstofnun Suðurlands ekki skorast undan því. Það er hins vegar álit okkar að það sé algjörlega óásættanleg ráðstöfun að svipta HSu getu til að halda uppi fæðingarþjónustu með vanhugsuðum og skammsýnum sparnaðaráformum og undrast ráðið hversu hljóðir þingmenn kjördæmisins hafi verið um þetta mál og lítið beitt sér til að stöðva þessa aðför að heilbrigðisþjónustu svæðisins.
 
 
 
f.h. Hjúkrunar- og ljósmæðraráðs
Anna Guðríður Gunnarsdóttir, formaður