Hjólað í umferðinni

Að hjóla er góð æfing fyrir börn. Það þjálfar vöðva barnsins, samhæfingu handa og fóta og jafnvægi. Börn eiga hins vegar erfitt með að meta hraða, fjarlægð og hvaðan hljóð berast. Þau eiga erfitt með að setja sig í spor annarra og átta sig á hvað ökumenn bíla hyggjast gera. Eins eiga þau erfitt með að sjá aðstæður í heild eða samhengi á milli smáatriða. Ung börn eiga sérstaklega erfitt með að einbeita sér að mörgum atriðum í einu.

Miðað við almennan þroska og getu barna er barnið fyrst tilbúið til að hjóla í umferðinni við 10-12 ára aldur. Fram að þeim aldri er fjarlægðarskynið ekki fullþroskað þannig að barninu finnst hlutirnir vera lengra í burtu en þeir í rauninni eru. Yngri börn hafa heldur ekki eins góða hliðarsýn og þau sem eldri eru. Heyrn barna yngri en 8 ára er ekki fullþroskuð og geta þau því ekki greint úr hvaða átt hljóð kemur. Við 10 ára aldur hafa þau náð fullum jafnvægisþroska. Það er því fyrst við 10-12 ára aldur sem þau hafa þroska til að meðtaka allt sem fer fram í kringum þau þar sem þau hjóla.

Áður en barnið fer út á nýju hjóli þarf að velja svæði sem eru örugg fyrir barnið að hjóla á. Gatan fyrir framan heimilið er alls ekki rétti staðurinn, þó að íbúðahverfið teljist vera rólegt hverfi. Brýnið fyrir barninu að hjóla aldrei á götunni. Ekki er nóg að fara yfir þetta einu sinni með barninu heldur verða foreldrar sífellt að hafa eftirlit með því. Tilvalið er að nota tímann til að vera úti með barninu og fylgjast þannig með því og leiðbeina á jákvæðan og góðan hátt.

Æskilegt er að hjóla frekar á gangstéttum og göngustígum en á götum, en þar hafa gangandi vegfarendur forgang. Hringja skal bjöllu tímanlega þegar komið er aftan að gangandi fólki. Á sambyggðum gang- og hjólastígum skal fylgja merkingum um hvoru megin eigi að hjóla.

Hjólreiðamaður þarf að gefa merki um ætlun sína í umferðinni. Aðallega er um tvenns konar merkjagjöf. Annars vegar að rétta út hendi til vinstri eða hægri ef ætlunin er að beygja. Hins vegar að setja höndina upp þegar stöðvað er. Ætlast er til að merkið sé gefið tímanlega og hafa báðar hendur á stýri á meðan beygt eða stöðvað er, svo ekki sé hætta á að hjólreiðamaðurinn missi stjórn á hjólinu. 

Áður en barninu er leyft að hjóla í umferðinni er mikilvægt að fara vel yfir umferðareglur hjólreiðamanna.

Hverjar eru helstu orsakir reiðhjólaslysa hjá börnum yngri en 10 ára?

  • Börn beygja skyndilega fyrir bíla.
  • Börn víkja ekki fyrir bílum.
  • Börn eru annars hugar.
  • Börn stytta sér leið.
  • Börn hjóla á rangri akrein.
  • Börn fara ekki eftir umferðarskiltum.
  • Börn hafa lélegt jafnvægi.

 

Heimildir: www.barn.is, www.6h.is, www.heilsugaeslan.is , www.msb.is

f.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Ólöf Árnadóttir

Hjúkrunarstjóri heilsugæslunnar í Rangárþingi