Hjartalæknir á HSu

Á HSu starfar Ágúst Örn Sverrisson, sérfræðingur í hjartasjúkdómum en hann er jafnframt yfirlæknir sjúkrasviðs stofnunarinnar. Hann sinnir göngudeild lyflækninga og þar eru gerðar ýmsar rannsóknir á sjúklingum sem grunaðir eru um hjartasjúkdóma eða hafa verið greindir með slíkt.  Má þar nefna áreynslupróf, sólarhrings blóðþrýstingsmælingu, hjartarafritun (Holter) og hjartaómskoðun.


 

Tilgangur áreynsluprófs er að láta reyna á hjarta, lungu og æðakerfi. Einnig er prófið gott til að meta úthald og þol.


Með sólarhrings blóðþrýstingsmælingu er leitast við að bæta greiningu og meðferð blóðþrýstingskvilla og hefur sjúklingur lítið upptökutæki á sér í einn sólarhring.


Með hjartarafritun (Holter) er tekið sólarhrings hjartarafrit. Þessi rannsókn felst í síritun á hjartariti, oftast í sólarhring og gengur sjúklingurinn þá með lítið upptökutæki á sér. Þessi rannsókn er gerð þegar leitað er eftir hjartsláttartruflunum.


Rafvendingar eru framkvæmdar á legudeild sjúkrahússins en tilgangur rafvendingar er að leiðrétta gáttatif/gáttaflökt. Þegar um er að ræða gáttatif (atrial fibrillation) eða gáttaflökt (atrial flutter) getur verið ákjósanlegt að gefa rafstuð til þessa að leiðrétta hjartasláttaróregluna. Yfirleitt þurfa sjúklingar þá að vera á blóðþynningu í ákveðinn tíma fyrir og eftir rafstuðsmeðferðina til að hindra blóðsegamyndun. Rafvending er einföld og fljótleg meðferð framkvæmd í stuttri og léttri svæfingu.


Ágúst er ávallt viðstaddur þegar áreynslupróf eru gerð, en hjartaómanir og rafvendingar framkvæmir hann sjálfur. Sjúklingur getur því treyst því að hann hittir sérfræðing í hjartalækningum þegar hann kemur í slíkar rannsóknir á HSu.