Hin eina sanna „flensa“.

 

Unnur Þormóðsdóttir

Arnar þór Guðmundsson Á þessum árstíma eru alls kyns pestir algengar, og margir með „flensu“. Hugtakið flensa er almennt notað yfir hverskyns kvefpestir og kverkaskít og réttilega eru margar ólíkar veirusýkingar í gangi á sama tíma sem geta valdið svipuðum einkennum. Ein þessara veirusýkinga kallast inflúensa og er almennt talin sú skæðasta. Hún er bráðsmitandi en fólk verður einnig almennt meira lasið af henni en af öðrum veirusýkingum. Inflúensan er árleg og nær hámarki frá seinni hluta janúar og fram í mars, þó að hennar geti verið vart miklu lengur. Inflúensan orsakast af veiru sem berst manna á milli með úðasmiti (hósta, hnerra) eða með snertingu (hendur), smithætta er meiri innanhúss. Einstaklingur getur verið smitandi áður en einkenni koma fram en er mest smitandi fyrstu dagana. Yfirleitt koma einkenni fram innan 4 daga frá smiti. Oftast veikist einstaklingurinn með háum hita, hálssærindum, höfuðverk, nefrennsli, roða í augum og beinverkjum ásamt miklum slappleika. Einnig ber á þurrum hósta sem kemur yfirleitt nokkrum dögum eftir að einkenni hófust og dregur þá stundum á sama tíma úr hálssærindum og höfuðverk. Hóstinn getur verið mjög sár og sviði í öndunarfærum. Börn fá þessi sömu einkenni en geta einnig verið með ógleði, uppköst og kviðverki. Í flestum tilvikum ganga einkenni niður á u.þ.b einni viku. Hóstinn getur varað í allt að 3 vikum. Ein afleiðing inflúensu getur verið lungnabólga, eða sýking í kinnaholum. Eldri einstaklingar og sjúklingar með undirliggjandi hjarta-eða lungnavandamál þola ver en aðrir að fá inflúensu.

Þar sem um er að ræða veirusýkingu þá hjálpa sýklalyf ekki. Til að minnka einkenni er fólki ráðlagt að drekka nægan vökva, nota hitalækkandi lyf og verkjalyf, í sumum tilvikum hjálpar nefúði.

Besta vörnin gegn inflúensu er bólusetning sem fram fer á hverju hausti. Við mælum með bólusetningu almennt, en sérstaklega eru það ákveðnir áhættuhópar sem eiga að láta bólusetja sig (eldri borgarar, hjarta- og lungnasjúklingar, sjúklingar með ónæmisbælingu, sykursýki o fl.). Bóluefnið gefur mismunandi góða vörn en yfirleitt er það þannig að stærsti hluti þeirra sem bólusetja sig sleppa við inflúensu og þeir sem fá hana fá yfirleitt vægari einkenni. Hægt er að bólusetja þó að inflúensufaraldur sé hafinn, en hún veitir ekki vörn ef maður er orðinn veikur af inflúensu. Engin hætta er á því að verða veikari af bólusetningunni.

Mikilvægt er að reyna að forðast smit með því að þvo sér um hendur, ekki vera í beinni snertingu við fólk sem eru veikt. Þeir sem eru veikir með flensueinkenni eiga að halda sig heima.

Hvenær skal hafa samband við heilsugæsluna? Hár hiti sem hefur staðið í 4-5 daga. Hiti sem hefur lækkað og horfið en síðan hækkað aftur. Mikil skyndileg versnun á líðan, öndunarerfiðleikar eða ef um er að ræða sjúkling í áhættuhóp, sem fær einkenni inflúensu.  

 

f.h. heilsugæslunnar á Selfossi HSU

Arnar Þór Guðmundsson yfirlæknir

Unnur Þormóðsdóttir hjúkrunarstjóri