Hertar aðgerðir

Nú liggur fyrir að stjórnvöld hafa boðað hertar aðgerðir sem munu taka gildi á miðnætti í kvöld þ. 24.mars 2021. Tíu manna fjöldatakmörkun verður meginreglan og aðeins börn fædd 2015 og síðar verða þar undanskilin. Hertar reglur munu gilda í 3 vikur.

Hópsýkingar að undanförnu eru allar af völdum breska afbrigðis kórónuveirunnar sem er talin mun meira smitandi en önnur afbrigði og veldur frekar alvarlegum veikindum. Vegna þessa þurfum við því miður að stíga til baka í þær aðgerðir sem við þekkjum allt of vel. Í meginatriðum eru um sömu reglur að ræða og tóku gildi 31. október sl.

Þessar fréttir hafa mikil áhrif á okkur öll en við verðum að halda ótrauð áfram í baráttunni við þennan skæða heimsfaraldur. Heilt yfir hefur okkur gengið vel hérna á Suðurlandi og innan Heilbrigðisstofnun Suðurlands í þessari baráttu og ég hef enga ástæðu til að halda að annað komi til núna. Við þraukum áfram og horfum til þess með eftirvæntingu að þetta gangi hratt yfir.

Í ljósi aðstæðna hvetjum við fólk til að mæta í sýnatökur við minnstu einkenni en bólusettir einstaklingar eru ekki undanþegnir því að fara í sýnatökur ef þeir fá einkenni. Við hvetjum líka alla til að huga vel að persónulegum sóttvörnum og gefa ekkert eftir í þeim málum.

Við bendum á að hægt er að nýta heilsuvera.is fyrir fyrirspurnir og lyfjaendurnýjanir en mikilvægt er að einstaklingar veigri sér ekki við að nýta heilbrigðisþjónustu þegar þess er þörf.

Díana Óskarsdóttir, forstjóri HSU