Heimsókn þingmanna Sjálfstæðisflokks til HSU

Þingmenn Sjálfsstæðisflokksins í suðurkjördæmi ásamt hluta stjórnar HSUÍ dag komu þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi í heimsókn á HSU og áttu fund með framkvæmdastjórn.  Heimsóknin er liður í kjördæmaviku alþingismanna. Farið var yfir markmið sameiningar heilbrigðisstofnanna á Suðurlandi hjá nýrri stofnun. Fjölmörg tækifæri eru til að skapa styrkari rekstrar- og stjórnunareiningar og auka getu þeirra til að taka sjálfstæðar ákvarðanir er snúa að rekstri stofnana í umdæminu. Hjá nýrri stofnun aukast einnig möguleikar á samstarfi og samnýtingu þjónustuþátta öllum íbúum og sjúklingum til hagsbóta. Ný tækifæri skapast í mannauðsmálum sérstaklega með tilliti til þjálfunar, kennslu og endurmenntunar heilbrigðisstarfsfólks.

 

Til að svo megi verða er ljóst að afar aðkallandi er að leysa skuldavanda fyrrverandi heilbrigðisstofnanna á Suðurlandi. Við upphaf rekstrar nýrrar sameinaðrar stofnunar HSU blasir við að skuldavandi stofnunarinnar í heild sinna er umtalsverður og meiri en svo að við hann verði ráðið án aðgerða framkvæmdavaldsins. Farið var sértaklega vel yfir þá erfiðu stöðu með þingmönnunum. Ef ekkert er að gert má telja víst að markmið sameiningarinnar muni ekki skila sér og stofnunin muni lenda í miklum rekstrarvanda.  Án aðgerða sem leiðrétta þessa stöðu þarf að grípa til stórtækra niðurskurðarúrræða. Vandinn er einkum tilkominn vegna uppsafnaðs vanda á fyrrum HSVe. Ljóst er að niðurskurður fyrri ára í heilbrigðisþjónustunni hefur komið illa við HSVe en einnig hefur verið mikill kerfislegur vandi í rekstri þar undanfarin ár. Afleitt er að hefja rekstur nýrrar sameinaðrar stofnunar með óuppgerðar eldri skuldir við lánadrottna og að óbreyttu mun það skapa mikinn rekstrarvanda þar sem áætlun HSU fyrir árið 2015 er innan ramma fjárlaga, að undaskildum skuldum fyrrverandi HSVe og yfirdráttarskuld HSu. Útistandandi skammtímaskuldir umfram greiðslugetu hjá stofnunni í heild sinni eru því áætlaðar nú í árslok 2014 ríflega 184.000.000 kr. og eru að mestu leyti tilkomnar á árunum 2011-2013. Verið er að vinna að lausn á vettvangi ráðuneyta.

 

Bjartsýni ríkir þó hjá nýrri framkvæmdastjórn HSU og farið var yfir með þingmönnunum þau fjölmörgu verkefni sem tilheyra nýrri stofnun. Tilgangur verkefna sem tengjast sameiningunni er að ná sem skjótustum árangri í að ljúka lykilþáttum sem snúa að sameiningunni og ná fram stjórnunar- og rekstrarlegu hagræði. Lögð er áhersla á þátttöku allra starfsmanna og að upplýsingar flæði auðveldlega til allra og tryggja þannig árangur í innleiðingu breytinga í sameiningarferlinu. Einnig var greint frá því að framundan eru einnig mörg verkefni sem lúta að auknum gæðum í þjónustu við sjúklinga og íbúa á Suðurlandi.

 

 

Herdís Gunnarsdóttir

Forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands