Heimsókn norræns E-Health hóps til HSU

13. september 2016

Forstjóri HSu

Í gær heimsótti HSU E-Health hópur á vegum norrænu Ráðherranefndarinnar ásamt fulltrúum frá Embætti Landlæknis. Tilgangur heimsóknarinnar var að kynna fyrir hópnum hagnýtingu heilbrigðisstarfsmanna á HSU á nýjungum í rafrænni sjúkraskrá og aðgengi íbúa að eigin heilsufarsupplýsingum. Herdís Gunnarsdóttir  forstjóri HSU kynnti hlutverk HSU í heilbrigðisumdæmi Suðurlands og helstu verkefni og tækifærin sem fólgin eru með  hagnýtingu upplýsingatækni á heilbrigðissviði. Víðir Óskarsson yfirlæknir bráðamóttöku á Selfossi og Hólmfríður Einarsdóttir aðgangsstjóri sjúkraskrár, sýndu samtengingar milli gagnagrunna í SÖGU sem er rafræn sjúkraskrá á Íslandi, þar sem meðferðarupplýsingar eru tiltækar milli stofnanna til að tryggja samfellu og öryggi í meðferð sjúklinga.  Auk þess kynntu þau hvernig íbúar á Suðurlandi geta pantað rafrænt tíma á heilsugæslu í gegnum VERU og óskað eftir endurnýjun lyfja. Á fundinum sköpuðumst miklar umræður um það hvernig starfsmenn nota kerfið og hverju þessi aðgangur hefur breytt. Einnig kom fram á fundinum að íbúar Suðurlands hafa verið fremstir í flokki að kynna sér nýjungar í VERU.  Sigurður Árnason yfirlæknir og Auðbjörg Bjarnadóttir hjúkrunarstjóri á Kirkjubæjarklaustri kynntu fyrir hópnum þverfaglega samvinnu þeirra á milli með hagnýtingu fjarheilbrigðisþjónustu og hvernig má auðvelda aðgengi íbúa í dreifðum byggðum að sérfræðiþjónustu og flýta fyrir meðferð með fjarheilbrigðiþjónustu. Fundurinn var vel heppnaður og ánægjulegt að fá að kynna hópnum þann árangur sem hefur náðst með nýjungum í rafrænni sjúkraskrá á landsvísu.

 

 

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU.