Heimsókn landlæknis á HSU

Á vormánuðum kom Alma D. Möller í heimsókn til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi. Með henni í för voru Laura Scheving Thorsteinsson og Salbjörg Bjarnadóttir frá skrifstofu eftirlits og gæða hjá embættinu.

 

Tilurð fundarins með landlækni var heimsókn til framkvæmdastjórnar HSU, í kjölfar á boði okkar til hennar að heimsækja okkur. Herdís Gunnarsdóttir forstjóri HSU og framkvæmdastjórn kynntu starfsemi og árangur þjónustunnar hjá Heilbrigðisstofnuninni og hver væru heltu tækifæri og áskoranir í starfseminni á næstu misserum. Eins skoðaði landlæknir húsnæði og aðstöðu og hitti starfsfólk stofnunarinnar.

 

Ferðin var jafnframt notuð til að ljúka eftirfylgni Embættis landlæknis á úttekt á starfseminni hjá okkur hjá okkur, sem fór fram á heilsugæslusviði HSU í árslok 2017. Afar ánægjulegt er að geta þess að nú þegar lokadrög af eftirfylgninni liggja fyrir kemur fram „að HSU hefur gripið til ýmissa aðgerða í kjölfar úttektarinnar í því skyni að efla gæði og öryggi þeirrar heilbrigðisþjónustu sem HSU veitir. Ljóst er að stjórnendur HSU hafa tekið tillit til ábendinga landlæknis og unnið töluverða umbótavinnu varðandi ýmsa þætti starfseminnar. Ýmislegt hefur verið fært til betri vegar, s.s. varðandi læknamönnun og hjúkrunarvakt. Þá hefur biðtími eftir geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og fjölskyldur þeirra styst umtalsvert og er það vel. Efla þarf þó þá þjónustu enn frekar. Ánægjulegt er að metnaðarfull aðgerðaráætlun um innleiðingu geðheilsuteymis á HSU liggur fyrir. Þá er vinna við gæðavísa í ákveðnum farvegi.“

 

Svo bættist við á dagskrá kynning frá Embætti landlæknis á gæðaáætlun sem skal nú innleiða á heilbrigðisstofnunum og var verið að kynna fyrstu skerf í þeirri áætlun. Það er afar mikilvægt að hefjast handa við innleiðingu á slíkum gæðamælingum til samanburðar fyrir árangur innan stofnunar og milli stofnanna.

 

Við á HSU þökkum fyrir frábæra heimsókn,

 

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri.