Heimsókn íbúa Rangárþings til forstjóra Heilbrigðisstofnunar HSU

undirskriftarlisti-afhenturÍ dag komu íbúar úr Rangárþingi á fund til forstjóra HSU. Tilefni fundarins var beiðni þeirra um að fá að afhenda forstjóra undirskriftarlista frá íbúum. Því var afar vel tekið og áttu fundarmenn afar gott og gagnlegt samtal. Á fundinn mættu Lovísa B. Sigurðardóttir, Þorsteinn Ragnarsson og Þórhallur Svansson frá Hellu og Árný L. Karvelsdóttir, Bjarki Oddsson og Guðlaug Einarsdóttir frá Hvolsvelli. Á undirskriftarlistanum sem íbúar afhentu stóð: „Við undirrituð skorum á Þóri Kolbeinsson lækni að halda áfram starfi á Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Um leið stuðli stjórn HSU að því að þrjár 100% stöður lækna verði mannaðar á Heilsugæslustöðvum í Rangárvallasýslu. Þá krefjumst við þess að þjónusta í Rangárvallsýslu verði bætt frá kl. 16:00-08:00 virka daga og um helgar.“

 

Í Fréttablaðinu þriðjudaginn 15. nóvember er fjallað um málefni er varða mönnun hjá Heilsugæslu Rangárþings sem heyrir undir Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) og rekur tvær starfsstöðvar, aðra á Hvolsvelli og hina á Hellu. Fullyrðingar þar voru margar hverjar byggðar á misskilningi byggðar og fékkst tækifæri á fundinum í dag til að leiðrétta þær.

 

Á fundinum fór fram miðlun upplýsinga til fulltrúa íbúa um það fyrirkomulag sem ríkt hefur undanfarin 5 ár í vaktþjónustu á svæðinu. Í ljós kom að fundarmenn virtust ekki þekkja nægjanlega vel til þessa fyrirkomulags og krafan um vaktþjónustu er því á misskilningi byggð. Í Rangárþingi er bakvakt læknis eftir klukkan fjögur alla virka daga og allar helgar og helgidaga til að sinna bráða- og neyðarþjónustu fyrir íbúa Rangárþings. Í neyð skal ávallt hringt í 112 og eins ef slys ber að höndum. Því er læknir á vakt fyrir íbúa Rangárþings allan sólarhringinn. Bráðaþjónusta og vaktmóttaka vegna veikinda er opin allan sólarhringinn á Selfossi og svo hefur verið frá árinu 2011.

 

Samkvæmt fjárlögum ríkisins á yfirstandandi ári er mönnun lækna miðuð við íbúafjölda, eins og annars staðar á landinu. Heilbrigðisstofnun Suðurlands hefur fjárheimild fyrir 2,75 stöðugildum heimilislækna við Heilsugæslu Rangárþings. Öll stöðugildi heilbrigðisstarfsfólks í Rangárþingi eru fullmönnuð. Alls eru starfsmenn 18 hjá Heilsugæslu Rangárþings sem sinna sameiginlega bæði starfsstöðinni á Hellu og Hvolsvelli með svo árangursríkri teymisvinnu að til fyrirmyndar er.  Allir þeir sem leita til heilsugæslunnar í Rangárþingi fá viðtal eða samtal við heilbrigðisstarfsmann samdægurs. Árangur af því faglega starfi sem þar er unnið er m.a. sá að af öllum heilsugæslum landsins er biðtími eftir lækni á Hvolsvelli með því stysta sem þekkist á landsvísu. Þau verkefni sem eru mest aðkallandi í heilbrigðisþjónustu í Rangárþingi er að bæta sjúkraflutninga, en það verkefni er í skoðun hjá fjármálaráðuneytinu og eins að efla heimahjúkrun sem er stöðugt viðfangsefni í heilbrigðisþjónustu á öllu landinu.

 

Um þessar mundir felast megináskoranirnar í rekstri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands í því að styrkja betur stoðir þriggja meginsviða við sjúkrahúsið á Selfossi þar sem álagið er mest, en það eru sjúkrasvið, bráðamóttaka og sjúkraflutningar í umdæminu sem nær frá Hellisheiði austur til Hafnar í Hornafirði. Þessar áskoranir eru aðallega til komnar vegna stóraukins straums ferðamanna um Suðurland og mikillar fjölgunar á bráðamóttöku sjúkrahússins, ekki síst ferðamanna. .Að mati framkvæmdastjórnarinnar er starfsemi heilsugæslunnar í umdæminu hins vegar í mjög viðunandi horfi og hvergi knýjandi þörf fyrir aukna mönnun. Hins vegar gerir framkvæmdastjórn HSU sér fyllilega ljóst að í öllum rekstri er ætíð hægt að gera betur í dag en í gær.

 

 

Hér má sjá yfirlísingaskjalið

 

 

Selfossi 18. nóvember 2016.

F.h. framkvæmdastjórnar HSU,

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri.