Heimsókn frá Réttargeðdeildinni í Álaborg í Danmörku

Réttargeðdeildin á Sogni fékk góða heimsókn þann 8. sept. sl. en þá kom 6 manna hópur frá Réttargeðdeildinni í Álaborg á Danmörku.Forvígismaður ferðalanganna var Kjeld Reinert M.D. yfirlæknir á deildinni en með í för voru geðlæknir, sálfræðingur, félagsráðgjafi og tveir læknaritarar. Tilgangur ferðarinnar var einkum faglegs eðlils en einnig að skoða lítið brot af landinu, en enginn úr hópnum hafði komið hingað áður. Hópurinn heimsótti einnig dómsmálaráðuneytið, Geðdeild LSH, Landlækni Fangelsismálastofnun og Fangelsið á Litla Hrauni og var alls staðar vel tekið.

Heimsókn þessi var starfsfólki á Sogni mikil hvatning. Reynt var að nýta tímann sem best til að veita Dönunum innsýn í okkar stofnanir og þjónustukerfi á þessu sviði. Einnig var rætt um ný markmið og áfanga að þeim.

Ræddir voru möguleikarnir á því að starfsfólk af Réttargeðdeildinni á Sogni gæti farið í heimsókn á Réttargeðdeildina í Álaborg og séð hvernig þar er staðið að málum og útvíkkað sjóndeildarhring sinn og sótt nýjan innblástur. Kjeld Reinert, yfirlæknir kvað þetta meira en velkomið og nú er ákveðið að hafinn verði undirbúningur að slíkum ferðum. Enginn vafi er á því að afar mikilvægt er fyrir Réttageðdeildina á Sogni að verða aðili að slíkum faglegum samskiptum.

Danir virðast vera komnir langt á þessu sviði og hafa fleiri pláss og þróaðri lög og þjónustukerfi fyrir sjúklinga á sviði réttargeðlæknisfræði og afbrotamála, jafnvel þótt miðað sé við fólksfjölda. Þeir byrjuðu líka nokkrum áratugum fyrr heldur en við að byggja upp þennan málaflokk og hafa þannig verulegt forskot, en ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að við herðum okkur og fetum í fótspor þeirra þjóða sem lengst eru komnar af okkar alkunnu íslensku snerpu og hraða. Rannsóknir og forvarnir þurfa einnig að sitja í fyrirrúmi. Myndarleg uppbygging á þessu sviði væri okkur Íslendingum til mikillar sæmdar.