Heimaþjónusta ljósmæðra á Suðurlandi

Töluverðar  breytingar hafa orðið á barneignaþjónustu á Íslandi síðustu áratugi, fæðingarstöðum hefur fækkað og þjónusta eftir fæðingu er mikið breytt.  Sængurlega sem konum var venjulega boðið upp á í nokkra daga hefur styst og fara flestar konur nú heim eftir 36-72 klst. frá fæðingu barns og þiggja þá heimaþjónustu.

Heimaþjónusta  er í höndum ljósmæðra sem eru með samning við Sjúkratryggingar Íslands og er þjónustan veitt utan hefðbundins vinnutíma þeirra.  Ljósmæður sinna þörfum mæðra, nýbura og fjölskyldu bæði um helgar og aðra frídaga sé þess þörf. Miðað er við að hver fjölskylda fái 5-7 heimsóknir innan 10 daga frá fæðingu barns allt eftir líðan og heilsufari eftir fæðingu.   Í hverri heimsókn metur ljósmóðirin heilsufar og líðan móður og nýbura og veitir fræðslu sem við á hverju sinni.

Eftir að heimaþjónustu lýkur tekur heilsugæslustöð fjölskyldunnar við eftirliti barnsins og móður þess ef þörf er á.

Mismunandi er eftir byggðarlögum hvort ljósmóðir með heimaþjónustusamning sé staðsett/eða búi  í nálægð við nýju fjölskylduna og hvort boðið sé upp á heimaþjónustu á því svæði. Verðandi foreldrar eru hvattir til þess að kynna sér hver þjónustan er í þeirra heimabyggð en upplýsingar um það má nálgast hjá ljósmóður í mæðravernd.  

Á ljósmæðravakt HSU Selfossi er hægt að bjóða nýbura og móður sem ekki hafa kost á heimaþjónustu upp á sængurlegu.  Þar er einnig gert ráð fyrir því að maki eða annar stuðningsaðili geti dvalið með sængurkonu og barni í þá daga sem sængurlega varir án endurgjalds.

 

 

f.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Arndís Mogensen, ljósmóðir HSU

 

https://www.landlaeknir.is/servlet/file/store93/item23146/Fagl-leidbein-heima_ljosmaedur_2014_heildarskjal.pdf