Heilsuvika á Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Heilsueflingarkarl HSuÞessa vikuna hefur staðið yfir heilsuvika hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands, sem hluti af heilsueflingu starfsfólks. Heilsuefling er ekki bara líkamsrækt, heldur öll sú hegðun sem miðar að bættri heilsu, andlegri sem líkamlegri. Þessa vikuna er starfsfólki stofnunarinnar boðið upp á heilsufarsmælingar, fyrirlestra og  námskeið auk þess sem hvatt til hverskonar hreyfingar. Í febrúar mun HSu svo taka virkan þátt í Lífshlaupinu.

 

Daglegir fyrirlestrar
Boðið er upp á daglega fyrirlestra þessa viku. Á mánudaginn hélt Guðrún Dadda Ásmundardóttir iðjuþjálfi, fyrirlestur um líkamsbeitingu, enda mikið til að vinna þar sem stoðkerfisvandamál eru algeng vegna rangrar líkamsbeitingar, hvort sem það er í umönnunarstéttum eða hjá fólki sem vinnur við tölvu allan daginn. Á þriðjudeginum hélt sjúkraþjálfari stofnunarinnar, Gunnhildur A. Vilhjálmsdóttir, fyrirlestur undir heitinu, Rétta hreyfingin fyrir þig og ráðlagði þar áheyrendum um daglega hreyfingu sem undirstöðu góðrar heilsu. Á miðvikudeginum héldu Bjarnheiður Böðvarsdóttir hjúkrunarfræðingur og Björn Magnússon læknir fyrirlestur um næringu og heilsu, en bæði hafa þau starfað að ráðgjöf við ofþunga. Í dag, fimmtudag, heimsækir Edda Björgvinsdóttir leikkona stofnunina og fjallar um húmor og gleði á vinnustöðum og á morgun mun Hafrún Kristjánsdóttir sálfræðingur halda fyrirlestur um liðsheild.

Námskeið og leiðsögn um tækjasal
Þar sem hreyfing er einn mesti áhrifavaldur góðrar heilsu, hefur starfsfólki einnig staðið til boða hin ýmsu námskeið eins og hlaupanámskeið, skriðsundsnámskeið, júdó-kynning, Metabolic-kynning og gönguhópur. Starfsfólk hefur einnig fengið leiðsögn um tækjasal stofnunarinnar sem því býðst aðgangur að, utan dagvinnutíma. Þó hjólahópur stofnunarinnar sé ekki með dagskrá yfir vetrarmánuðina, má til gamans nefna að sá hópur fer inn í sitt 21. starfsár í vor.

Heilsufarsmælingar
Í heilsufarsmælingunum er starfsfólki boðið upp á þær mælingar sem faglega er forsvaranlegt að gera í skimprófunum af þessu tagi, en það eru blóðsykur, blóðþrýstingur, kólesteról og líkamsþyngdarstuðull. Til fróðleiks fylgir hér gildi þessara mælinga.

Blóðsykur: Glúkósi er mikilvægasti orkugjafi líkamans, sérstaklega fyrir heilann. Hormón halda þéttni glúkósa í blóði innan þröngra marka og eru áhrif insúlíns mikilvægust. Sykurmagn í blóði er mismikið m.a. eftir því hve langt er liðið frá síðustu máltíð en viðmiðunargildi  fastandi blóðsykurs er < 6.1 mmol/l. Ef fastandi blóðsykur mælist yfir 7 mmól/l er viðkomandi með sykursýki. Ef fastandi blóðsykur er milli 6,1 og 6,9 er aukin áhætta á sykursýki. Ef nákominn ættingi er með eða hafði tegund tvö sykursýki, eykst einnig hætta á sykursýki. Ef blóðsykurhækkun er langvarandi, getur hún m.a. valdið skemmdum á æðum og taugum t.d. í nýrum, hjarta og augum.  Frekari upplýsingar um sykursýki má finna á vef Samtaka sykursjúkra (www.diabetes.is).

Blóðþrýstingur: Eðlilegur blóðþrýstingur er 135/85 en kjörblóðþrýstingur er lægri en 120/80. Langvarandi háþrýstingur hefur skaðleg áhrif á hjarta- og æðakerfi en er oft einkennalítill. Hann eykur verulega hættuna á heilablóðfalli og skaðar einnig augu og nýru. Mikilvægt er að mæla blóðþrýsting og nauðsynlegt að taka það alvarlega ef hann mælist of hár. Frekari upplýsingar um háan blóðþrýsting má finna í bæklingi Hjartaverndar um Heilablóðfall og háþrýsting (www.hjarta.is).

Kólesteról: Gildi kólesteróls í blóði (mmól/lítra) ákvarðast m.a. af erfðum en einnig af mataræði. Æskilegt er að heildarkólesteról sé minna en 5, það tekst hátt á bilinu 6-8 og mjög hátt ef meira en 8. Hátt kólesteról stuðlar að kransæðasjúkdómi. Frekari upplýsingar um kólesteról má finna í bæklingi Hjartaverndar (www.hjarta.is).

Líkamsþyngdarstuðull: BMI-kvarði er notaður til að meta heilsufarsáhættu út frá hlutfalli hæðar og þyngdar (kg/m2). Til þess þarf að mæla bæði hæð og þyngd. Kjörþyngd miðast við BMI 18.5-25, yfirþyngd 25-30, offita 30-40 og mikil offita yfir 40. Offita er verulegur áhættuþáttur margra sjúkdóma, s.s. hjarta- og æðasjúkdóma, fullorðinssykursýki, ýmissa krabbameina, heilablóðfalls, gallblöðrusjúkdóma, stoðkerfissjúkdóma og svefntruflana. Frekari upplýsingar um offitu má finna í bæklingi Hjartaverndar (www.hjarta.is).