Heilsuvernd ungra barna og þroskaskimanir

32 Anna Guðríður GunnarsdóttirSkipulögð ung- og smábarnavernd hefur verið í boði á Íslandi allt frá árinu 1927 og er einn af mörgum þáttum heilsuverndar sem hefur það að markmiði að efla og styrkja heilbrigði einstaklingsins, fjölskyldunnar og þjóðfélagsins. Landlæknisembættið gefur út ráðgefandi leiðbeiningar varðandi Ung- og smábarnavernd – Leiðbeiningar um heilsuvernd barna 0-5 ára. Í mörg ár hefur verið fylgst reglulega með heilsu og framvindu á þroska barna, bæði vitsmuna- og tilfinningaþroska, ásamt félagslegum og líkamlegum þroska frá fæðingu til skólaaldurs.

 

Hjúkrunarfræðingar í ung- og smábarnavernd eru í þeirri sérstöðu að koma inn á heimili flest allra nýfæddra barna og vinna í samvinnu við aðra fagaðila eftir því sem við á. Áhersla er lögð á að mynda gagnkvæmt traust milli hjúkrunarfræðingsins og fjölskyldunnar, veita stuðning og stuðlað þannig að því, að börnum séu búin bestu mögulegu uppvaxtarskilyrði á hverjum tíma. Í ungbarnaverndinni er boðið uppá 11 lykilskoðanir fram að skólaaldri. Þær eru mikilvægar svo hægt sé að greina sem fyrst frávik er varða heilsufar og þroska og til að hægt sé að gera viðeigandi ráðstafanir, svokölluð snemmtæk íhlutun.

 

Tvö skimunartæki sem notuð eru í 2 ½ árs og 4 ára þroskaskimuninni, styðjast við bestu þekkingu á þroska barna og þeim vandamálum sem íslensk börn eiga við að etja;

PEDS er spurningalisti þar sem foreldrar geta lýst yfir áhyggjum sínum varðandi málþroska, heyrn, fín- og grófhreyfingar, hegðun (athygli) og almenna þroskaframvindu barns síns, en þetta eru þættir sem spá fyrir um vandamál barna.

BRIGANCE þroskaskimun felst í fyrirlögn hjúkrunarfræðings á verkefnum sem barnið fær tækifæri til að leysa. Skimunin skiptist í þrjú svið: skólafærni, samskiptafærni og hreyfifærni sem mælir fín- og grófhreyfingar, málnotkun, orðaforða og málskilning, forlestrarfærni, magnhugtök og þekkingu á persónulegum högum. Ef barn fær heildarskor undir viðmiðstölu fyrir sitt aldurbil er skýrt kveðið á um

  • Hvenær og hvort eigi að vísa í frekara mat
  • Athugun áhættuþátta fyrir undirörvun
  • Hvaða prófþættir hafa meiri fylgni við raunverulegan vanda
  • Hvort barnið sé undir áhættuviðmiðunarmörkum eða ekki

 

Þar sem hlutverk hjúkrunarfræðinga er að efla heilbrigði, bæta líðan og lina þjáningar skjólstæðinga felst snemmtæk íhlutun ekki einungis í því að veita barninu meðferð, heldur felst hún einnig í ráðgjöf til foreldra. Til þess að snemmtæk íhlutun beri árangur þarf samvinnu foreldra, leikskóla og allra fagaðila til eflingar heilsu og velferð barnsins.

 

Fh. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands

Anna Guðríður Gunnarsdóttir

hjúkrunarfræðingur MSc og

verkefnastjóri ung- og smábarnaverndar heilsugæslu Selfoss