Heilsuvernd starfsmanna – ráðgjöf í fjarveru frá vinnu

Ólöf ÁrnadóttirStarfsmannaheilsuvernd er margþætt svo sem hjúkrunarþjónusta, læknisskoðanir og sálfræðiþjónusta Einn af mörgum þáttum starfsmannaheilsuverndar, fjarvistastjórnun hefur náð vaxandi umræðu síðustu 15 árin. Rannsóknir hafa bent til þess að fjarvistir séu ekki einungis einn þeirra þátta sem hafa áhrif á samkeppnihæfni og rekstarafkomu fyrirtækja, heldur gefur fjarvistastjórnun mjög gott tækifæri til að stjórna mörgum þáttum sem hafa áhrif á tíðni og lengd fjarvista, vinnustaðamenningu, framleiðni og vellíðan starfsmanna í vinnu.

Fjarvistastjórnun tengist heilsu og líðan einstaklinga og þeim starfskröfum sem gerðar eru á mismunandi vinnustöðum og störfum. Með góðu skipulagi á vinnustað, öruggu og heilsusamlegu vinnuumhverfi auk meðvitaðrar stjórnunar fjarvista sem og stuðnings við endurkomu til vinnu eftir veikindi og slys, má hafa áhrif á fjarveru frá vinnu.

Með fjarvistastefnu og skráningu fjarvista, ásamt almennri umræðu um fjarvistir og þekkingu starfsmanna á verkferlum fjarvistastjórnunar hjá viðkomandi fyrirtæki, aukast líkur á að hægt sé að draga úr tíðni og lengd fjarvista. Menning fyrirtækisins, vinnuumhverfið, stuðningur við stjórnendur og skýrir verkferlar varðandi tilkynningar og endurkomu til vinnu eftir veikindi og slys, geta haft afgerandi áhrif á hversu auðvelt er að fara aftur til vinnu þrátt fyrir minniháttar heilsufarslega óþægindi eða einkenni.

Ekki er hægt að koma í veg fyrir allar fjarvistir, en það er hægt að draga úr þeim með vali á aðferðum sem taka tillit til aðstæðna tengdum störfum og menningu á vinnustað. Taka þarf tillit til fjölþættra ástæðna veikindafjarvista þegar verið er að leita leiða til að ná árangri við að aðstoða einstaklinga í veikindum. Taka þarf tillit til þess og viðurkenna að starfsmenn þurfa að taka sér frí frá vinnu og hafa réttmætar ástæður til þess. Ákveðið hlutfall veikindafjarvista er óumflýjanlegt og nauðsynlegt að styðja við veika starfsmenn.  Traust og velvilji eru grundvallaþættir í árangursríkri endurkomu til vinnu auk þess að vinna gegn félagslegum og samskiptalegum hindrunum. Styðja þarf við starfsmenn og stjórnendur með fjarvistastefnu og mótun vinnuferla.

Segja má að fjarvistastefna, ekki síður en ákvæði um forvarnir og vinnuvernd ætti að vera hluti af mannauðsstefnu hvers fyrirtækis. Margir vinnustaðir hafa trúnaðarlækni sem og hjúkrunarfræðing sem veitir rágjöf í fjarveru frá vinnu sem og heilsuvernd starfsmanna.

 

Ólöf Árnadóttir

Hjúkrunarstjóri í Rangárþingi