Heilsugæslan á Selfossi flytur í nýtt húsnæði

Flutningur heilsugæslunnar á Selfossi í nýtt og glæsilegt húsnæði markar tímamót í starfsemi stöðvarinnar. Áralöng bið eftir stærra húsnæði á jarðhæð nýbyggingarinnar við Heilbrigðisstofnun Suðurlands er nú loks á enda og er starfsfólk þakklátt og ánægt með áfangann. Með auknu rými og bættri aðstöðu skapast ný tækifæri í þjónustu við íbúa á Suðurlandi og stefnum við að því að efla hana með ýmsu móti.

Áfram verður rekin hefðbundin þjónusta heimilislækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og ljósmæðra. Heimahjúkrun hefur verið efld undanfarin ár þar sem nú er boðið upp á bæði kvöld- og helgarþjónustu og hafa sjúkraliðar séð um þessar heimsóknir. Mikilvæg breyting verður á fyrirkomulagi bráðaþjónustu sem nú verður aðskilin frá sjálfri heilsugæslustöðinni. Með þessu verður betri tími til að sinna bráðatilvikum en sömuleiðis mun slík þjónusta valda minni truflunum á daglegu starfi heilsugæslunnar. Hjúkrunarfræðingur verður á vakt á milli 10 og 16 um helgar á bráðamóttöku og getur því sinnt neyðartilfellum í heimahjúkrun á þeim tíma. Mæðra- og ungbarnavernd verður í svipuðu formi og áður en nú verður aðstaða mæðraverndar loksins komin inn á heilsugæsluna. Hjúkrunarfræðingar og heimilislæknar stöðvarinnar hafa að undanförnu verið að leita inn á nýjar slóðir í þjónustuúrræðum við skjólstæðinga hennar og hefur sem dæmi stuðningur við ofþunga einstaklinga og sáramóttaka tekist vel. Einnig er boðið upp á heilsufarsmælingar til starfsfólks fyrirtækja og hefur sú þjónusta farið vaxandi. Trúnaðarlæknisþjónusta er líka í boði fyrir fyrirtæki og hefur nú þeim fyrirtækjum og sveitarfélögum fjölgað sem heilsugæslan sinnir. Þær nýjungar sem boðið verður upp á með tilkomu nýrrar stöðvar eru unglingamóttaka sem ætluð er unglingum og ungu fólki á aldrinum 13-20 ára, astmamóttaka þar sem einstaklingum með astma og langvinna lungnasjúkdóma verður m.a. leiðbeint og kennt að nota innúðalyf, þvaglekamóttaka þar sem frætt verður um möguleg úrræði til að sporna gegn þvagleka og sykursýkismóttaka sem felst m.a. í ráðgjöf um næringu, fræðslu um notkun lyfja og annað það sem einstaklingar með sykusýki glíma við. Hjúkrunarfræðingar koma til með að vera með fasta símatíma daglega þar sem sinnt verður öðru en bráðasímtölum en þeim verður áfram svarað af hjúkrunarfræðingi á slysamóttöku. Sálfræðingar munu nú fá nýja og betri aðstöðu inni á heilsugæslustöðinni, ásamt því að geðhjúkrunarfræðingur verður áfram með viðtöl. Þá munu sérgreinalæknar á sviðum lyflækninga, hjartalækninga, kvensjúkdóma, HNE og augnlækninga fá aðstöðu á nýju heilsugæslustöðinni sem verður á allan hátt betri og hentugri en áður.

Við teljum að með þessu stóra skrefi sem stigið hefur verið komi þjónusta við íbúa til með að styrkjast til muna og erum við full tilhlökkunar að takast á við ný og ögrandi verkefni. Með þessari kynningu óskum við íbúum svæðisins til hamingju með nýju aðstöðuna og bjóðum ykkur hjartanlega velkomin.


f.h. starfsfólks heilsugæslustöðvarinnar á Selfossi


Unnur Þormóðsdóttir yfirhjúkrunarfræðingur


Arnar Þór Guðmundsson yfirlæknir