Heilbrigðisstofnun Suðurlands í fjórða sæti í Lífshlaupinu

Lið heilsugæslu Rangárþings sigraði liðakeppni HSu 2014.  Frá vinstri; Sigríður Björk Sigurðardóttir læknaritari fh. starfsmannafélagsins, Sóley Pálmadóttir sjúkraliði í Rang., Lilja Einarsdóttir hjúkrunarfræðingur Rang. og Guðlaug Einarsdóttir hjúkrunarfræðingur Self., en hún sá um skipulagningu Lífshlaupsins hjá HSu.

Lið heilsugæslu Rangárþings sigraði liðakeppni HSu 2014. Frá vinstri; Sigríður Björk Sigurðardóttir læknaritari fh. starfsmannafélagsins, Sóley Pálmadóttir sjúkraliði í Rang., Lilja Einarsdóttir hjúkrunarfræðingur Rang. og Guðlaug Einarsdóttir hjúkrunarfræðingur Self., en hún sá um skipulagningu Lífshlaupsins hjá HSu.

Í síðustu viku lauk Lífshlaupinu, landskeppni í hreyfingu sem er árlegur viðburður á vegum ÍSÍ í samstarfi við Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Velferðarráðuneytið, Embætti landlæknis, Advania, Rás 2 og Ávaxtabílinn. Heilbrigðisstofnun Suðurlands tók virkan þátt í keppninni sem stóð yfir í 3 vikur, frá 5. – 25. febrúar og skráðu þátttakendur daglega hreyfingu sína.

 

Þátttaka HSu í Lífshlaupinu kemur í beinu framhaldi af heilsueflingu starfsmanna HSu sem efnt var til í janúar. Öllu starfsfólki stofnunarinnar var þá boðið upp á heilsufarsmælingar þar sem mældur var blóðþrýstingur, blóðfita, blóðsykur og líkamsþyngdarstuðull. Ein af grunnstoðum góðrar heilsu er dagleg hreyfing og mælir Embætti landlæknis með því að fullorðnir hreyfi sig í minnst hálftíma á dag en börn í klukkutíma á dag.

 

Lífshlaupið hefur það að markmiði að hvetja alla landsmenn til að hreyfa sig daglega en er einnig vel til þess fallið að auka liðsheild á vinnustöðum.

 

Mjög góð þátttaka náðist á HSu og voru nítján misstór lið skráð til leiks með 171 þátttakanda, eða 57% starfsmanna á launaskrá stofnunarinnar.

 

Eftir jafna og harða keppni, urðu úrslitin þau að Heilbrigðisstofnun Suðurlands varð í fjórða sæti í landskeppninni af 33 vinnustöðum sem keptu í þeim stærðarflokki sem má teljast góður árangur. Af þeim nítján liðum sem kepptu sín á milli innan stofnunarinnar, bar Heilsugæsla Rangárþings sigur af hólmi, annað árið í röð. Starfsmannafélag HSu veitti Rangæingum verðskulduð verðlaun í lokahófi sem haldið var 28. febrúar í anddyri stofnunarinnar. Þar var boðið upp á veitingar og Leikhópur Fsu flutti lög úr söngleiknum Footloose við góðar undirtektir en leikhópurinn frumsýnir söngleikinn fimmtudaginn 6. mars og er óhætt að mæla með sýningunni hjá þessum flottu krökkum.

 

Þar sem ekki áttu allir heimangengt til að koma í lokahófið á Selfossi, verðlaunaði HSu einnig allar starfsstöðvar stofnunarinnar utan Selfoss, fyrir frábæra þátttöku í Lífshlaupinu, með köku þann sama dag.

 

Nú þegar er komin stemming fyrir þátttöku í Lífshlaupinu að ári og að sjálfsögðu stefnir Heilbrigðisstofnun Suðurlands enn hærra þá.