Heilbrigðisstofnun Suðurlands 10 ára

100 Magnús Skúlas2Hinn 1. september sæ. voru liðin 10 ár frá stofnun Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSu) með sameiningu heilsugæslustöðva og sjúkrahúss á Suðurlandi.

Þjónustusvæði hinnar nýju stofnunar náði þá til um 17.000 íbúa á Suðurlandsundirlendinu. Um var að ræða 8 heilsugæslustöðvar, eitt sjúkrahús á Selfossi og hjúkrunardeild fyrir aldraða, samtals 55 sjúkrarúm og réttargeðdeild á Sogni í Ölfusi með 7 rými og heilbrigðisþjónustu við fangelsið á Litla Hrauni. Alls voru um 200 stöðugildi hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

Hinni nýju Heilbrigðisstofnun Suðurlands var ætlað að styrkja heilbrigðisþjónustuna á Suðurlandi og gert var ráð fyrir að einstakir þættir hennar yrðu efldir. Með sameiginlegri stofnun gafst tækifæri til að jafna vaktaálag starfsmanna stofnunarinnar. Einnig varð meiri samvinna meðal starfsmanna og stoðþjónusta efldist. Samnýting rekstrarþátta skapaði möguleika til hagkvæmari reksturs og til varð öflugri rekstrareining, nýir áhersluþættir og betra starfsumhverfi.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands hafði það meginmarkmið að ná fram jákvæðum áhrifum með því að starfrækja heilbrigðisþjónustuna á Suðurlandi í einni heilsteyptri stofnun. Stofnunin hefur staðið fyrir fundum um heilbrigðismál á Suðurlandi, tekið þátt í ýmsu starfi með stjórnvöldum, sinnt kennsluþjónustu heilbrigðisstétta ofl. Stofnunin hefur haft náið samstarf við aðrar heilbrigðisstofnanir, m.a. við LSH varðandi samtengingu sjúkraskrárkerfa.

Haustið 2004 var boðið út verk við nýja byggingu við heilbrigðisstofnunina á Selfossi og framkvæmdir hófust í nóvember það ár. Var þar um að ræða nýtt húsnæði fyrir hjúkrunardeildina Ljósheima, sem hafði verið starfrækt í gamla sjúkrahúsinu við Austurveg frá árinu 1984. Einnig var þar gert ráð fyrir nýju og stærra húsnæði fyrir heilsugæsluna á Selfossi. Á seinni stigum var ákveðið að bæta einni hæð, 3. hæð, við bygginguna, þar sem hjúkrunardeildin Fossheimar er nú. Nýja húsnæðið var tekið í notkun á árunum 2008 – 2010. Við það fjölgaði hjúkrunarplássum úr 26 í 40 og heilsugæslan fékk mun stærra húsnæði, auk þess sem aðstaða fyrir ýmsa stoðþjónustu batnaði verulega.

Í byrjun árs 2006 tók HSu við sjúkraflutningum í Árnessýslu, sem sýslumannsembættið hafði annast í tæp 50 ár. Þar með voru allir sjúkraflutningar á þjónustusvæði stofnunarinnar á hendi HSu.   Til að leysa húsnæðisþörf fyrir sjúkrabíla og sjúkraflutningamenn tók HSu þátt í undirbúningi að byggingu Björgunarmiðstöðvar á lóð stofnunarinnar. Björgunarfélag Árborgar byggði húsnæðið, en HSu leigir húsnæði fyrir sjúkraflutninga. Brunavarnir Árnessýslu eru einnig með aðstöðu í húsinu og er núverandi eigandi þess.

Miklar náttúruhamfarir á Suðurlandi á árunum 2008 – 2010 reyndu mikið á starfsmenn og starfsemi stofnunarinnar eins og á aðra á Suðurlandi. Þá komu ekki síst í ljós kostir þess að til staðar var ein öflug heilbrigðisstofnun á Suðurlandi. Auðvelt var að styrkja þjónustu þar sem þörfin var mest, starfsfólk fór á milli starfsstöðva og tók þátt í þjónustu gagnvart íbúum á vettvangi, sem og i almannavarnarstarfi.

Efnahagshrunið haustið 2008 hafði mikil áhrif á stofnunina eins og allt þjóðfélagið. Fjárveitingar til stofnunarinnar lækkuðu mikið og því þurfti að draga útgjöld verulega saman. Haft var að leiðarljósi að verja þjónustuna eins og kostur var. Tókst það að mestu leyti, en einnig urðu töluverðar breytingar á þjónustunni og á ýmsan hátt til styrkingar.

Við áföll síðustu ára hefur verið leitast við af fremsta megni að verja þjónustuna og aðlaga hana breyttum aðstæðum. Rekstur stofnunarinnar er í jafnvægi og stofnunin hefur verðið þeirrar gæfu aðnjótandi, að nánast ávallt hefur verið hægt að ráða starfsfólk í þær stöður, sem lausar hafa verið hverju sinni. Stofnunin hefur notið velvilja íbúa svæðisins og fengið mikið af gjöfum frá samtökum, fyrirtækjum og íbúum svæðisins. Hafa þessar gjafir nánast alfarið staðið undir endurnýjun á tækjum og búnaði stofnunarinnar og tryggt nauðsynlega framþróun.

Nú eru aftur tímamót í heilbrigðisþjónustu á Suðurlandi. HSu verður áfram til, en frá 1.október 2014 í nýju hlutverki, þar sem starfssvæði hennar nær einnig yfir núverandi starfssvæði Heilbrigðisstofnunar Suðausturlands á Hornafirði og Heilbrigðisstofnunarinnar í Vestmannaeyjum.

Kærar þakkir fyrir ánægjulegt samstarf sl. 10 ár.

 

Magnús Skúlason,

Forstjóri.