Heilbrigðisstarfsmenn HSu frá beinan aðgang að rannsóknarniðurstöðum á LSH

Landspítali og Heilbrigðisstofnun Suðurlands hafa gert með sér gagnkvæma samninga um rannsóknir, myndgreiningu og samnýtingu upplýsinga. Nýlega samþykkt lög um sjúkraskrár gera þetta samstarf mögulegt og með samningunum verða til dæmis upplýsingar um þær rannsóknir sem sjúklingur hefur farið í aðgengilegri en verið hefur. Við það batnar þjónusta við sjúklinga og minna verður um að endurtaka þurfi rannsóknir sem þegar hafa verið gerðar.


 

Samningarnir opna marga möguleika á betri þjónustu og til hagræðingar. Þegar sjúklingar leita til sjúkrahússins á Selfossi og heilsugæslustöðva á Suðurlandi geta heilbrigðisstarfsmenn til dæmis fengið beinan aðgang að svörum úr blóðrannsóknum og röngenrannsókna sem gerðar hafa verið á Landspítala.


Gera má ráð fyrir að þetta fyrirkomulag verði tekið upp víðar í samskiptum milli heilbrigðisstofnana á næstunni.


Björn Zoëga, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala, og Óskar Reykdalsson, framkvæmdastjóri lækninga á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, undirrituðu samninginn á Selfossi föstudaginn 22. maí 2009.