Heilbrigðisráðherra fundar á HSu

Heilbrigðisráðherra, Ögmundur Jónasson, fundaði með stjórnendum og starfsfólki HSu á Selfossi í gær. Hann fór yfir stöðu mála og þann niðurskurð sem blasir við á öllum heilbrigðisstofnunum á landinu, en alls á að lækka útgjöld sem nemur 6,7 milljörðum. Ráðherra vill samvinnu við heimamenn og ætlar að koma á fót samráðsnefnd, sem skipuð verður sjórnendum HSu, fulltrúum sveitarfélaga og þeirra sem nýta sér mest þjónustu stofnunarinnar, þ.e. Félagi eldriborgara og félögum, sem stutt hafa stofnunina með gjöfum, s.s. SSK. Einnig munu koma þar að fulltrúar frá LSH og hugsanlega fleirum, en ætlunin er að fara heildstætt yfir áhrif af hugsanlegum breytingum á heilbrigðisþjónustunni.


 

Góðar umræður urðu á fundinum og ráðherra svaraði fjölmörgum fyrirspurnum. Þórir B. Kolbeinsson, formaður læknaráðs HSu, benti á mikilvægi HSu í samfélaginu á Suðurlandi og hvernig angar þess teygja sig inn í menntastofnanir á svæðinu. Einnig óttaðist hann að fólk myndi flytja af svæðinu þegar og ef dregið verður úr þjónustu heilbrigðisstofnunarinnar.


Svanborg Egilsdóttir, yfirljósmóðir, benti á að fyrirhuguð skerðing á þjónustu við fæðandi konur myndi leiða af sér verulega fækkun fæðinga og væri einungis flutningur á fjármagni þ.e. til LSH frá HSu og hefði því ekki neinn sparnað í för með sér.


Fundinn sóttu um 150 starfsmenn og hefur aldrei verið haldinn svo fjölmennur fundur með starfsfólki stofnunarinnar.


Að loknum fundi með starfmönnum átti ráðherra, ásamt Berglindi Ásgeirsdóttur, ráðuneytisstjóra og Sveini Magnússyni, yfirlækni, fund með framkvæmdastjórn HSu og fulltrúum sveitarfélaga á þjónustusvæði HSu.