Heilbrigðisráðherra ásamt föruneyti í heimsókn á HSU

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

11. janúar 2018

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, heimsótti í dag Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi. Með henni í för voru Iðunn Garðarsdóttir aðstoðarkona ráðherra ásamt Vilborgu Ingólfsdóttur skrifstofustjóra og Elsu B. Friðfinnsdóttur sérfræðingi af skrifstofu heilbrigðismála í Velferðarráðuneytinu.  Í upphafi heimsóknarinnar var farið yfir hlutverk, starfsemistölur og rekstur sviða stofnunarinnar. Rætt var við ráðherra um helstu áskoranir í rekstri sem tengjast gífurlegri aukningu verkefna í grunnþjónustu.  Farið var meðal annars yfir vaxandi biðtíma eftir hjúkrunarrýmum á Suðurlandi vegna tímabundinnar lokunar rýma, mikla fjölgun vitjana í heimahjúkrun í Þorlákshöfn, Laugarási og Vestmannaeyjum síðustu ár og fordæmalausan vöxt í sjúkraflutningum og komum á Bráða- og slysamóttöku á Selfossi.  Einnig var rætt um þann árangur sem náðst hefur frá sameiningu bæði í rekstri, samvinnu og verkefnum og samningum sem lúta að starfsmannamálum. Starfsemi og mönnun heilsugæslustöðva, sjúkrasviðs og hjúkrunardeilda var rædd og þau faglegu tækifæri sem eru framundan á hverjum stað.  Sterkar vísbendingar koma fram í könnunum um að HSU sé eftirsóttur vinnustaður, starfsandi mælist mjög góður, starfsmenn eru mjög stoltir af starfi sínu á HSU og starfsánægja hefur vaxið marktækt á síðustu 5 árum. Afar góður árangur hefur náðst við að manna nánast allar stöður lækna, hjúkrunarfræðinga, ljósmæðra, sálfræðinga, sjúkraþjálfara, lífeindafræðinga, geislafræðinga, sjúkraflutningamanna, annarra heilbrigðisstarfsmanna og starfsfólks.  Farin var skoðunarferð um húsið og rætt við starfsmenn, skoðuð var aðstaða sem bíður endurbóta og tækjakostur stofnunarinnar. Undir lok heimsóknarinnar var boðið upp á fimm stutt erindi um læknisþjónustu á Litla Hrauni, sálfræðiþjónustu fyrir börn og fjölskyldur þeirra á Suðurlandi, innleiðingu gæðaverkefnis og skimunar vegna geðheilbrigðis verðandi mæðra, starfsemi og þjónustu BMT á Selfossi og sjúkraflutninga í umdæminu.  Mjög góðar umræður fóru fram milli fundarmanna og ráðherra um lykilþætti í starfsemi HSU. Ráðherra þakkaði fyrir afar upplýsandi og vel skipulagða heimsókn og hrósaði starfsmönnum á HSU fyrir nýsköpun og framsýni við úrræði í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Fyrir hönd okkar þökkum við ráðherra kærlega fyrir heimsóknina og gagnlegt samtal um heilbrigðisþjónustu sem veitt er í umdæmi Suðurlands.  Það er okkur mikilvægt að skynja þann áhuga og skilning sem ráðherra sýndi okkur með heimsókninni.  Við óskum Svandísi Svavarsdóttur alls velfarnaðar í embættinu og hlökkum til nánara samstarfs á komandi misserum.

 

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU.