Heilablóðfall

Heilablóðfall, einnig kallað slag, er skyndileg breyting á heilastarfsemi sem orsakast af truflun á blóðflæði til heilans. Truflunin getur stafað af blóðtappa í æð eða af því að æð brestur/rofnar og blæðir inni í heilavefinn, heilablæðing. Í báðum tilfellum verður skortur á blóði til ákveðins staðar í heilanum sem veldur því að súrefni og önnur næringarefni berast ekki til frumna þess staðar sem æðin nærði. Hluti heilafrumnanna deyr en starfsemi annarra raskast. Blóðtappi er níu sinnum algengari en heilablæðing.  Á Íslandi eru um 600 einstaklingar sem fá heilablóðfall á ári hverju og með hækkandi aldri þjóðarinnar er líklegt að þessi tala hækki á komandi árum.

Einkenni heilablóðfalls eru margvísleg og ráðast af því hvaða hluta heilans verður fyrir skemmdum (blóðskorti) og umfangi skemmdanna. Staðbundin skemmd á ákveðnum svæðum veldur starfstruflun á ákveðu líkamssvæði eða sérhæfðri líkamsstarfsemi. Hægra heilahvel stjórnar vinstri hluta líkamans og öfugt. 

Áhættuþættir fyrir heilablóðfalli eru til dæmis: Ættarsaga og fyrri saga um heilablóðfall, aldur, hár blóðþrýstingur, hátt kólesteról í blóði, sykursýki, reykingar, gáttatif, offita, kyrrseta og streita. 

Gott er fyrir fólk að þekkja helstu einkenni heilablóðfalls svo hægt sé að bregðast við ástandinu sem fyrst.

 

Einkenni geta verið einhver af eftirtöldu:
-Skyndilegar taltruflanir, erfiðleikar við að finna orð eða búa til setningar, óskýrt tal
-Skyndileg máttminnkun öðru megin í andliti, handlegg eða fótlegg. Hægt að sjá með því að biðja einstaklinginn um að brosa og/eða reka út úr sér tunguna  
-Slæmur höfuðverkur
-Ógleði og uppköst
-Erfiðleikar við að kyngja/borða
-Skyndileg truflun á jafnvægi, erfiðleikar með gang
-Skyndileg sjónskerðing, getur verið á öðru auganu eða báðum
-Skert meðvitund
-Öndunarerfiðleikar

Heilablóðfall er alltaf neyðartilfelli og mikilvægt að hringja strax í 112 svo hægt sé að hefja læknismeðferð sem fyrst.  
-Hagræða skal einstaklingnum í sitjandi stöðu og hughreysta.
-Ef viðkomandi er meðvitundarlaus og andar skal leggja hann í hliðarlegu á slappari hliðina. 

 

 

F.h. Heilbrigðisstofnunar Suðurlands,
Rán Jósepsdóttir,
Hjúkrunarstjóri heilsugæslu Rangárþings